hofdi.jpg

Um okkur

Höfði friðarsetur starfar undir Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar. Setrið var stofnað árið 2016 og hefur það að markmiði að stuðla að þverfræðilegum og alþjóðlegum rannsóknum í friðar- og átakafræðum, ýta undir upplýsta stefnumótun og aukið framboð á kennslu og fræðslu fyrir almenning á sviði friðar- og átakafræða.

Höfði friðarsetur leggur áherslu á hlutverk óhefðbundinna gerenda innan alþjóðasamskipta, s.s. borga, fyrirtækja, frjálsra félagasamtaka, almennra borgara, kvenna og minnihlutahópa (m.a. hinsegin hópa, innflytjenda, hælisleitenda og flóttafólks) þegar kemur að friðaruppbyggingu og friðarumleitunum. Rannsóknaráherslur Höfða friðarseturs haldast í hendur við nýlega stefnu innan alþjóðasamskipta þar sem auknum sjónum er beint að lægri stjórnsýslustigum og hvernig borgir og svæðisstjórnir geta haft áhrif á utanríkisstefnu ríkja og þróun á alþjóðavettvangi (e. paradiplomacy).

Eitt af hlutverkum Höfða friðarsetur er að aðstoða Reykjavíkurborg við að móta eigin stefnu í friðarmálum og marka sér enn sterkari sess sem borg friðar á alþjóðavettvangi, með mannréttindi, lýðræði og alþjóðasamstarf að leiðarljósi. Setrið vinnur einnig náið með Rannsóknasetri um smáríki og Rannsóknarsetri um norðurslóðir sem bæði heyra undir Alþjóðamálastofnun. Setrið beitir þverfræðilegri nálgun í starfi sínu og leggur áherslu á hagnýtingu rannsókna.

self.image.title

Friðar - og átakafræði

Höfði friðarsetur beitir nýjum aðferðum og nálgunum í friðar- og átakafræðum til að rannsaka ólíka gerendur sem hafa með beinum eða óbeinum hætti áhrif á friðarhorfur í heiminum í dag. Hlutverk almennra borgara og ólíkra hópa samfélagsins í að stuðla að eða grafa undan sjálfbærum friði er skoðað og sérstök áhersla lögð á kynjaðar afleiðingar átaka og mikilvægi aðkomu kvenna og minnihlutahópa að friðaruppbyggingu. Í þeirri nálgun beitir setrið samtvinnun (e. intersectionality) í rannsóknum sínum til að tryggja að jaðarsett sjónarmið fái að heyrast. Þessar áherslur eru í takt við aukin áhrif óhefðbundinna gerenda í alþjóðasamfélaginu sem birtast m.a. í alþjóðlegum hreyfingum á borð við #metoo, uppreisnir og byltingar víða um heim, og sameiginlegar yfirlýsingar borga, t.d. í tengslum Parísarsamkomulagið og innleiðingu kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Höfði friðarsetur starfar náið með hinum rannsóknarsetrum Alþjóðamálastofnunar og beinir þá sjónum að tengslum friðarfræða við smáríkjafræði og málefni norðurslóða. Í stærri og valdameiri ríkjum glíma jaðarsettir hópar gjarnan við sömu vandamál og smáríki, þ.e. þeir komast ekki að borðinu þar sem ákvarðanir eru teknar og þeirra sjónarmið verða undir. Þessir hópar eiga því, líkt og smáríki, meira undir réttarríkinu og alþjóðalögum. Innan smáríkja eru boðleiðir þó oft styttri og grasrótin getur því átt auðveldara með að koma skoðunum sínum á framfæri og hafa bein áhrif á stefnumótun.

self.image.title

Afvopnunarmál, samningatækni og friðsamleg lausn átaka

Eitt af markmiðum Höfða friðarseturs er að efla fræðslu og þekkingu um friðsamlegar lausnir átaka. Afvopnunarmál eru eitt mikilvægasta viðfangsefni alþjóðakerfisins og úrslitaatriði þegar kemur að því að byggja upp friðsamleg samskipti ríkja til framtíðar. Þar hafa stórveldi oft sterkari rödd og meiri áhrif en smáríki. Á norðurslóðum standa smáríki frammi fyrir því að Rússland, Kína og Bandaríkin keppast um völd. Til að vinna að friði er því mikilvægt að byggja upp hér á landi þekkingu á sáttamiðlun og því hvernig á að undirbúa sig fyrir, taka þátt í og meta flóknar alþjóðlegar samningaviðræður. Með þekkingu á samningatækni og þróun afvopnunarmála getur Ísland haft áhrif á þessu sviði á alþjóðavettvangi og tryggt stöðu sína í alþjóðakerfinu.

self.image.title

Samfélagsleg nýsköpun og friður

Höfði friðarsetur hefur markað sér sérstöðu með því að efla samfélagslega nýsköpun hér á landi og veita einstaklingum, frjálsum félagasamtökum og fyrirtækjum vettvang til að nýta eigin hugvit og þekkingu í þágu samfélagsins. Til að styðja enn frekar við þá uppbyggingu hefur friðarsetrið hug á að leggja ríkari áherslu á rannsóknir á gildi nýsköpunar fyrir friðaruppbyggingu og hvernig nýta megi tækni í þágu friðar (e. PeaceTech).

Í því samhengi er áhugavert að skoða hvernig nýta megi nýsköpun til að leysa þær áskoranir sem blasa við í alþjóðasamfélaginu og hvernig fyrirtæki geti stuðlað að betra samfélagi og friði með því að sýna samfélagslega ábyrgð. Eins er mikilvægt að rannsaka hlutverk ríkja, borga og alþjóðlegra stofnanna þegar kemur að því að styðja við samfélagslega nýsköpun og ýta undir umhverfis- og samfélagsábyrgð fyrirtækja.

self.image.title

Fólksflutningar

Höfði friðarsetur leggur áherslu á að rannsaka fólksflutninga og tengsl þeirra við frið og átök. Markmið setursins er að stuðla að rannsóknum og viðburðum sem auka þekkingu þegar kemur að áhrifum fólksflutninga á einstaklinga, samfélög og alþjóðakerfið. Landamæri hafa mikil áhrif á jaðarsetta hópa, konur og ungt fólk sem flýja erfiðar aðstæður í leit að betra lífi og nýjum tækifærum. Mikil áhætta fylgir flóttanum og eru þessir hópar útsettari fyrir kynferðislegu og kynbundu ofbeldi, brottnámi og nauðungarvinnu. Höfði friðarsetur leggur áherslu á að rannsaka og fjalla um aðstæður þessara hópa, gerendahæfni þeirra og hlutverk í að stuðla að jákvæðum breytingum.

Mikilvægt er að stuðla að ítarlegum rannsóknum á aukinni þjóðernis- og öfgahyggju í rótgrónum lýðræðisríkjum og meiðandi orðræðu í garð hælisleitenda, innflytjenda og flóttafólks í kjölfar þess. Þá er mikilvægt að háskólasamfélagið og Reykjavíkurborg vinni markvisst gegn fordómum með fræðslu og upplýstri umræðu og nýti rannsóknir til að bæta þjónustu við innflytjendur á Íslandi.

self.image.title

Lýðræði og traust

Setrið leggur áherslu á að rannsaka og greina áhrif og umfang falsfrétta og upplýsingafölsunar á samfélagslega umræðu. Sjónum er beint að miðlun upplýsinga og þeim breytingum sem hafa átt sér stað á fjölmiðlaumhverfinu þar sem net- og samfélagsmiðlar eru orðnir afar mikilvæg uppspretta og vettvangur stjórnmálaupplýsinga og samskipta. Þær breytingar eru ekki síður áhugaverðar í ljósi aukins aðgangs lýðskrumara að valdastólum og um leið aukinnar þjóðernis- og öfgahyggju á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlaumfjöllun. Þar er einkum tvennt sem setrið leggur áherslu á, hvernig traust til sérfræðinga, háskólasamfélagsins og hefðbundinna stjórnmálafla endurspeglast í opinberri umræðu og áhrif umræðunnar á jaðarsetta hópa í samfélaginu.