Markmið Alþjóðamálastofnunar er að vera leiðandi í rannsóknum um alþjóðamál og stöðu Íslands á alþjóðavettvangi. Hún stuðlar að upplýstri umræðu meðal fræðimanna, almennings og annarra aðila, sem láta sig íslensk utanríkismál og alþjóðamál varða. Tilgangur Alþjóðamálastofnunar er jafnframt að auka gæði og framboð náms um alþjóðamál og smáríki í grunn- og framhaldsnámi á háskólastigi, og að vera þjónustustofnun við atvinnulífið og hið opinbera. Til að ná þessum markmiðum beitir Alþjóðamálastofnun sér fyrir auknu samstarfi milli fræðimanna, atvinnulífs og opinberra aðila á sviði alþjóðamála og gengst fyrir ráðstefnum, umræðufundum og fyrirlestrum um efni sem tengjast starfssviði stofnunarinnar. Stofnunin er vettvangur fyrir fræðileg alþjóðasamskipti og þverfagleg þjónustuverkefni fyrir atvinnulíf, fyrirtæki og stofnanir. Fagmannleg vinnubrögð og trúverðugleiki eru höfð að leiðarljósi í starfi Alþjóðamálastofnunar. Rannsóknasetur um smáríki, Rannsóknasetur um norðurslóðir og Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands starfa innan vébanda Alþjóðamálastofnunar.
Alþjóðamálastofnun stendur fyrir ráðstefna á síðasta vetrardegi ár hvert í samstarfi við innlenda og erlenda samstarfsaðila um þau mál sem eru efst á baugi innan rannsóknasviða stofnunarinnar hverju sinni.
Forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar er Pia Hansson.
Rannsóknasetur um smáríki starfar undir Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands. Setrið var stofnað árið 2001 og hefur skapað sér sess sem eitt af fremstu rannsóknasetrum heims innan smáríkjafræða. Meginmarkmið setursins er að stuðla að rannsóknum og menntun um smáríki og beita sér fyrir framgangi smáríkjafræða á Íslandi og í alþjóðlegu samstarfi. Sérstaða Rannsóknaseturs um smáríki felst fyrst og fremst í áherslum setursins á smáríkjarannsóknir í víðum skilningi. Smáríkjafræði hafa vaxið í gegnum árin og rutt sér til rúms innan ólíkra fræðigreina og hefur Rannsóknasetur um smáríki verið leiðandi í þessari þróun.
Rannsóknasetur um smáríki hefur hlotið fjölda erlendra styrkja og viðurkenninga í gegnum árin sem hafa gert setrinu kleift að byggja upp stórt net samstarfsaðila um allan heim sem vinnur með setrinu að rannsóknum og gerð kennsluefnis. Frá árinu 2003 hefur setrið haldið sumarskóla í smáríkjafræðum við Háskóla Íslands þar sem fjölbreyttur nemendahópur frá evrópskum háskólum hefur lært um tækifæri og áskoranir smáríkja í alþjóðakerfinu. Árið 2013 var setrið útnefnt sem Jean Monnet öndvegissetur (e. Jean Monnet Centre of Excellence), og var fyrsta rannsóknasetur á Íslandi til að hljóta þessa eftirsóttu nafnbót. Rannsóknasetur um smáríki vinnur náið með Rannsóknasetri um norðurslóðir og Höfða friðarsetri, sem bæði heyra undir Alþjóðamálastofnun, að fjölbreyttum verkefnum á sviði rannsókna og menntunar.
Verkefnastjóri setursins er Tómas Joensen.
Baldur Þórhallsson, Prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, er rannsóknastjóri setursins.
Rannsóknasetur um norðurslóðir var stofnað árið 2013 og starfar undir Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands. Sérstaða setursins felst í þverfræðilegri nálgun rannsóknasetursins þar sem áhersla er lögð á að leiða saman fræðimenn af öllum sviðum og deildum háskólans sem leggja stund á norðurslóðarannsóknir. Frá stofnun setursins hefur verið sérstök áhersla á vestnorræna svæðið, Ísland, Grænland og Færeyjar sem og á vaxandi áhuga stórvelda á borð við Kína á norðurskautssvæðið og hvaða áhrif sá áhugi hefur haft á þessi smæstu lönd. Öryggismál hafa einnig verið ofarlega á baugi í verkefnum setursins og er þá átt við öryggismál í víðum skilningi þar sem meðal annars er komið inn á umhverfismál, alþjóðastjórnmál, varnarmál og samfélagsmál.
Rannsóknasetur um norðurslóðir styður við norðurslóðarannsóknir sem vísindafólk Háskóla Íslands stendur að og tekur þátt í og miðlar rannsóknaniðurstöðum. Auk þess stendur setrið fyrir fræðslu, fyrirlestrum og viðburðum, oft í samstarfi við aðrar innlendar og erlendar stofnanir. Setrið sinnir einnig margvíslegum verkefnum sem tengjast þátttöku Háskóla Íslands í Háskóla norðurslóða (UArctic) og formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu. Setrið nálgast viðfangsefnin á eins þverfræðilegan hátt og unnt er og leggur áherslu á eftirfarandi rannsóknaáherslur. Rannsóknasetur um norðurslóðir vinnur náið með Rannsóknasetri um smáríki og Höfða friðarsetri, sem bæði heyra undir Alþjóðamálastofnun, að fjölbreyttum verkefnum á sviði rannsókna og menntunar.
Verkefnastjóri setursins er Kristmundur Þór Ólafsson.
Höfði friðarsetur starfar undir Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar. Setrið var stofnað árið 2016 og hefur það að markmiði að stuðla að þverfræðilegum og alþjóðlegum rannsóknum í friðar- og átakafræðum, ýta undir upplýsta stefnumótun og aukið framboð á kennslu og fræðslu fyrir almenning á sviði friðar- og átakafræða.
Höfði friðarsetur leggur áherslu á hlutverk óhefðbundinna gerenda innan alþjóðasamskipta, s.s. borga, fyrirtækja, frjálsra félagasamtaka, almennra borgara, kvenna og minnihlutahópa (m.a. hinsegin hópa, innflytjenda, hælisleitenda og flóttafólks) þegar kemur að friðaruppbyggingu og friðarumleitunum. Rannsóknaráherslur Höfða friðarseturs haldast í hendur við nýlega stefnu innan alþjóðasamskipta þar sem auknum sjónum er beint að lægri stjórnsýslustigum og hvernig borgir og svæðisstjórnir geta haft áhrif á utanríkisstefnu ríkja og þróun á alþjóðavettvangi (e. paradiplomacy).
Eitt af hlutverkum Höfða friðarsetur er að aðstoða Reykjavíkurborg við að móta eigin stefnu í friðarmálum og marka sér enn sterkari sess sem borg friðar á alþjóðavettvangi, með mannréttindi, lýðræði og alþjóðasamstarf að leiðarljósi. Setrið vinnur einnig náið með Rannsóknasetri um smáríki og Rannsóknarsetri um norðurslóðir sem bæði heyra undir Alþjóðamálastofnun. Setrið beitir þverfræðilegri nálgun í starfi sínu og leggur áherslu á hagnýtingu rannsókna.
Verkefnastjóri setursins er Auður Birna Stefánsdóttir.
Silja Bára Ómarsdóttir, Prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands er rannsóknastjóri setursins.