Hladvarps-icon.jpg

Er friðurinn úti? 4. þáttur: Rödd Íslands á alþjóðavettvangi

Hefur Ísland rödd á alþjóðavettvangi? Getur Ísland haft áhrif í alþjóðakerfinu þegar kemur að því að sporna gegn ofbeldi og stuðla að friði á heimsvísu?

Í þessum þætti ræðir Margrét Marteinsdóttir við Piu Hansson, forstöðumann Höfða friðarseturs og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, um stærstu áskoranirnar sem framundan eru í friðarmálum og möguleika smáríkja til áhrifa á alþjóðavettvangi, Davíð Loga Sigurðsson, deildarstjóra á Alþjóða- og Þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins, um setu Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, Rósu Guðrúnu Erlingsdóttur, um þátttöku Íslands í átaki UN Women Kynslóð jafnréttis, Birnu Þórarinsdóttur, framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi og Stellu Samúelsdóttur, framkvæmdastýru UN Women á Íslandi, um möguleika Íslands til að setja mál á dagskrá á alþjóðavísu þegar kemur að því að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gagnvart börnum og Björn Bjarnason um mikilvægi norræns samstarf þegar kemur að friði. Í lok þáttar heyrum við pistil frá Baldri Þórhallssyni, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, um það hvort lítil ríki eins og Ísland geti orðið leiðandi í mannréttindamálum. Þátturinn er unninn í samstarfi við utanríkisráðuneytið og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Þátturinn er hluti af Friðardögum í Reykjavík 2020: Er friðurinn úti? sem haldnir eru á vegum Höfða friðarseturs Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands, í samstarfi við UNICEF á Íslandi, UN Women á Íslandi, Félag Sameinuðu þjóðanna og utanríkisráðuneytið.

Umsjónarmaður þáttanna er Margrét Marteinsdóttir, fjölmiðlakona.