🌍 🇺🇸 Á þeim sex vikum sem liðnar eru frá því að Donald Trump tók við embætti forseta Bandaríkjanna hafa orðið verulegar og ófyrirséðar breytingar á utanríkisstefnu landsins. Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands stóð fyrir opnum fundi föstudaginn 14. mars í fyrirlestrarsal Eddu, þar sem þessi málefni voru til umfjöllunar. Fundurinn var vel sóttur og skapaðist lífleg umræða um áhrif stefnu og aðgerða Trump-stjórnarinnar á varnir Íslands og alþjóðaviðskipti.
🎤 Í pallborði sátu Baldur Thorhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, Erlingur Erlingsson, hernaðarsagnfræðingur, Katrín Ólafsdottir, dósent við viðskipta- og hagfræðideild Háskólans í Reykjavík, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, alþingismaður og fyrrverandi utanríkisráðherra. Þau ræddu hvort og að hve miklu leyti Trump-stjórnin hefði náð árangri með stefnu- og áherslubreytingum í utanríkismálum, auk þess að velta fyrir sér hver þróunin gæti orðið á næstu árum. Fundarstjóri var Elín Margrét Böðvarsdóttir, fréttamaður á Stöð 2, Vísi og Bylgjunni.
📌 Pallborðsgestir voru sammála um að aðgerðir Trump-stjórnarinnar í utanríkis- og efnahagsmálum væru þaulskipulagðar og því mikilvægt að taka þær alvarlega. Ekki væri rétt að líta á þróun mála sem tilviljunarkennda atburðarás. Einnig kom fram að það væri mikilvægt að huga að áhrifum stefnu Trump á innanríkismál Bandaríkjanna, einkum þegar kæmi að mannréttindum og stöðu minnihlutahópa.
📌 Lögð var áherslu á að þótt tollastríð hefðu ekki bein áhrif á Ísland hefðu þau óbein áhrif í gegnum aukna óvissu sem hefði neikvæð áhrif á alþjóðaviðskipti. Jafnframt var bent á að stjórn Trump hefði þegar gengið gegn fríverslunarsamningum við nágrannaríki sín, Kanada og Mexíkó. Því væri óvíst hversu traustir bandamenn núverandi stjórnvöld Bandaríkjanna væru þegar kæmi að öðrum alþjóðasamningum.
📌 Í framhaldinu var rætt um mikilvægi þess að Ísland hugi að eigin varnar- og öryggismálum og tryggi stöðu sína með fjölbreyttum leiðum. Þar kom fram að skoða mætti samstarf við önnur ríki, svo sem Frakkland og Bretland, eða jafnvel inngöngu í Evrópusambandið, sem gæti veitt aukna öryggistryggingu.
🇮🇸 Að lokum voru þátttakendur sammála um að Ísland þurfi að standa vörð um eigin hagsmuni með því að vera áreiðanlegur bandamaður í alþjóðlegu samstarfi. Ísland ætti að nýta rödd sína á alþjóðavettvangi og tala fyrir því að alþjóðalög og mannréttindi séu virt.
📸 Hér að neðan má sjá svipmyndir frá fundinum sem Kristinn Ingvarsson ljósmyndari HÍ tók.