14. feb. 2024

Alþjóðasamvinna á krossgötum: Hvert stefnir Ísland?

Taktu daginn frá!

Árleg ráðstefna Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, utanríkisráðuneytisins og Norræna hússins í samstarfi við Félag stjórnmálafræðinga og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála verður haldin í Norræna húsinu miðvikudaginn 24. apríl frá kl. 10:00 - 18:00.

Í ár eins og síðastliðin  ár bjóðum við til samtals þar sem við kryfjum alþjóðamálin og allar þær áskoranir sem við okkur blasa í alþjóðasamfélaginu í dag. 

Komdu og vertu með - við lofum fjörugum og fræðandi umræðum!

Öll velkomin - skráning fer fram hér!

Beint streymi

Fylgjast má með ráðstefnunni í beinu streymi hér

Um ráðstefnuna

Utanríkisráðherra opnar ráðstefnuna og forseti Íslands flytur hátíðarerindi. Boðið er upp á fimm málstofur yfir daginn þar sem rætt verður um stöðu Íslands í varnar – og öryggismálum, vaxandi skautun í pólitískri umræðu, áskoranir og tækifæri EES samningsins á umbreytingartímum, og ávinning og áhættu gervigreindar á lýðræði. Þá munu fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi ræða utanríkisstefnu Íslands.

Dagskrá

Alþjóðasamvinna á krossgötum: Hvert stefnir Ísland? - Miðvikudaginn 24. apríl 2024 í Norræna húsinu

10:00 – 10:10 Setning ráðstefnu

Sabina Westerholm, forstjóri Norræna hússins

10:10 – 10:20 Opnunarávarp

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra

10:20 - 10:40 Hátíðarerindi

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands

10:40 – 12:00  Nýjar ógnir og versnandi horfur: Staða Íslands í varnar – og öryggismálum (Íslenska)

Erindi Erlingur Erlingsson, hernaðarsagnfræðingur og Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands

Pallborðsumræður Diljá Mist Einarsdóttir, formaður utanríkismálanefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Erlingur Erlingsson, hernaðarsagnfræðingur, Jónas Allansson, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Ragnar Hjálmarsson, doktor í stjórnarháttum, Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands

Málstofustjóri Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar

12:00 -12:30 léttur hádegisverður

12:30 – 13:30 Að brúa bilið: Hvernig drögum við úr vaxandi skautun í samfélaginu? (Íslenska)

Erindi Dylan Andres Herrera Chacon, doktorsnemi við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands

Pallborðsumræður Bergþóra Snæbjörnsdóttir, rithöfundur og baráttukona fyrir mannréttindum, Bryndís Haraldsdóttir, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Dylan Andres Herrera Chacon, doktorsnemi við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, Guðrún Hálfdánardóttir, blaða- og dagskrárgerðarmaður á RÚV

Málstofustjóri Jón Gunnar Ólafsson, nýdoktor í fjölmiðlafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands

13:30 – 14:30 Evrópusamstarf á krossgötum: Áskoranir og tækifæri EES samningsins á umbreytingartímum (Enska)

Erindi Pernille Rieker, sérfræðingur hjá norsku alþjóðamálastofnuninni (NUPI)

Pallborðsumræður Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís - Rannsóknamiðstöðvar Íslands, Bergþóra Halldórsdóttir, stýrir skrifstofu forstjóra hjá Borealis Data Center, Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, Samuel Ulfgard, staðgengill sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi

Málstofustjóri Auðunn Atlason, sendiherra í utanríkisráðuneytinu

14:30 – 14:50 Kaffihlé

14:50 – 15:50 Ávinningur eða áhætta? Áhrif gervigreindar á lýðræði (Enska)

Erindi Niels Nagelhus Schia, rannsóknaprófessor við norsku alþjóðamálastofnunina (NUPI)

Pallborðsumræður Brynjólfur Borgar Jónsson, framkvæmdastjóri Datalab, Halldóra Mogensen, formaður framtíðarnefndar Alþingis, Niels Nagelhus Schia, rannsóknaprófessor við norsku alþjóðamálastofnunina (NUPI), Páll Rafnar Þorsteinsson, verkefnastjóri við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, Theódór Ragnar Gíslason, meðstofnandi og framkvæmdastjóri tækni og nýsköpunar hjá Syndis og stofnandi Defend Iceland

Málstofustjóri Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar

15:50 - 16:00 Kaffihlé

16:00 – 17:00 Hvert stefnum við? Fulltrúar stjórnmálaflokka ræða utanríkisstefnu Íslands (Íslenska)

Pallborðsumræður Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, Jakob Frímann Magnússon, þingmaður Flokks fólksins, Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður Framsóknarflokksins, Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar

Málstofustjóri Sigmundur Ernir Rúnarsson, blaðamaður og rithöfundur

17:00 – 17:10 Lokaorð Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands

17:10 - 18:30 Móttaka og uppistand með Snjólaugu Lúðvíksdóttur (Enska)

*Athugið að allar málstofur sem fara fram á íslensku verða túlkaðar á ensku

Um málstofurnar

Utanríkisstefna Íslands og varnir á tímum umbreytinga í alþjóðakerfinu

Alþjóðastjórnmál samtímans einkennast af hröðum breytingum, má þar nefna átökin í Úkraínu og á Gasasvæðinu, aukna spennu í samskiptum stórvelda líkt og Bandaríkjanna, Kína og Rússlands og fjölbreyttar áskoranir tengdar loftslagsbreytingum. Á sama tíma horfir heimsbyggðin upp á hnignun lýðræðislegra gilda og aukna einræðistilburði í stjórnarfari einstakra vestrænna ríkja. Þessi spenna getur leitt til umbreytinga á þeim grundvallarkerfum sem hafa einkennt hið frjálslynda heimsskipulag. Í ljósi þessara áskorana þá vakna upp spurningar um hvort að fjölþjóðasamstarf eigi undir högg að sækja og hvort að alþjóðakerfið geti tekist á við þær áskoranir sem við okkur blasa.

Hvaða afleiðingar hefur þessi breytta heimsmynd í för með sér fyrir íslenska utanríkisstefnu? Hvernig er hægt að auka viðnámsþrótt Íslands í öryggis og varnarmálum og viðbúnað til að takast á við þær  ógnir sem að okkur steðja?

Að brúa bilið: Hvernig drögum við úr vaxandi skautun í samfélaginu?

Vaxandi skautun hefur verið í íslenskri samfélagsumræðu um málefni flóttafólks og innflytjenda. Þessi þróun hér á landi endurspeglar að mörgu leyti þá pólítísku skautun sem hefur átt sér stað víðar í Evrópu. Flótti og mannlegar þjáningar í kjölfar vopnaðra átaka hafa litað umræðuna á Íslandi varðandi mannúðaraðstoð og hlutverk okkar í að veita flóttafólki skjól. Mikilvægt er að finna leiðir til að draga úr spennu og skautun í samfélaginu.

Í þessum pallborðsumræðum viljum við leggja áherslu á hlutverk þriggja hópa sem geta haft áhrif á samfélagsumræðuna; stjórnmálafólk, fjölmiðla og grasrótarhreyfingar. Stjórnmálafólk gegnir mikilvægu hlutverki í að móta opinbera umræðu um erfið málefni sem geta leitt til skautunar. Fjölmiðlar og samfélagsmiðlar hafa einnig töluverð áhrif á almenna umræðu og viðhorf almennings gagnvart innflytjendum og flóttafólki. Þegar rætt er um viðkvæm samfélagsleg málefni vakna upp spurningar um mikilvægi ábyrgrar blaðamennsku og hvaða áhrif aukin samfélagsmiðlanotkun hefur á skautun í umræðunni. Grasrótarstarf gegnir mikilvægu hlutverki við að standa vörð um mannréttindi og veita stjórnvöldum aðhald.

Það er mikilvægt að við séum öll vakandi fyrir þeirri hættu sem stafar af óuppbyggilegri umræðu. Þegar umræður leiða til útilokunnar og hatursfullrar orðræðu minnka líkur á innihaldsríkum samræðum um erfið málefni.

Evrópusamstarf á krossgötum: Áskoranir og tækifæri EES samningsins á umbreytingartímum

Í sumar verður kosið til Evrópuþingsins og ný framkvæmdastjórn tekur til starfa í haust. Fyrirhuguð er stækkun ESB og möguleg dýpkun samstarfsins þar sem sum ríki munu vinna nánar saman („multi-speed Europe“). Vegna innrásarstríðs Rússlands í Úkraínu hefur verið kallað eftir auknu samstarfi Evrópuríkja í öryggis- og varnarmálum, og forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í nóvember munu hafa áhrif. Skautun í evrópskum stjórnmálum virðist vera að aukast og einangrunar- og verndarhyggja í milliríkjaviðskiptum fer vaxandi. Þá er töluverð undiralda gegn Evrópusamstarfi en á sama tíma krefjast brýn úrlausnarefni, s.s. loftslags- og heilbrigðisvá, enn nánara alþjóðasamstarfs. Allir þessar kraftar geta haft bein og óbein áhrif á EES, og þar með íslenska hagsmuni. Hvernig verður EES-samstarfið um fertugt?

Áhrif gervigreindar á lýðræði

Það felast mörg tækifæri í aukinni notkun gervigreindar á alþjóðasviðinu, það getur leitt til skilvirkari ákvarðanatöku og aukinnar borgaralegrar þátttöku, svo eitthvað sé nefnt. Á sama tíma eru þó margar áskoranir sem felast í aukinni notkun á þessari ört vaxandi tækni. Algrím sem eru stýrð af gervigrein geta magnað upp ríkjandi slagsíður samfélagsins, búið til bergmálshella og þannig ýtt undir frekari skautun í samfélagsumræðunni. Þá hafa áhyggjur aukist vegna notkunar gervigreindar til djúpfölsunar og útbreiðslu falsfrétta sem hafa meðal annars haft áhrif á niðurstöður kosninga. Þá hafa vaknað upp áhyggjur af friðhelgi einkalífs þar sem að tæknin að baki gervigreind byggir á söfnun gríðarlegs magns persónuupplýsinga. Þar að auki getur aukin notkun gervigreindar á vinnumarkaði aukið á efnahagslegan ójöfnuð innan samfélaga.