1. des. 2025

Mannréttindi í mótvindi: Ábyrgð og áhrif Íslands á alþjóðavettvangi

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Utanríkisráðuneytið og Félag Sameinuðu þjóðanna skipulögðu opinn fund í tilefni alþjóðlegs mannréttindadags þann 10. desember s.l.
Um viðburðinn

Á alþjóðlegum degi mannréttinda er tilefni til að ræða stöðu mannréttinda í heiminum og mikilvægi þess að standa vörð um þau til að stuðla að friði og réttlæti. Hvernig tryggjum við vernd og eflum samstöðu á tímum þar sem grafið er undan mannréttindum? Hvernig getur Ísland verið öflugur málsvari mannréttinda á alþjóðlegum vettvangi?

Ísland hefur um áratuga skeið unnið að því að efla mannréttindi, frið og öryggi í alþjóðlegu samstarfi. Í því starfi hefur sérstök áhersla verið lögð á jafnrétti kynjanna og stöðu kvenna, réttindi barna og ungmenna, vernd hinsegin fólks og að styrkja lýðræði, tjáningarfrelsi og fjölmiðlafrelsi. Í málstofunni komu saman sérfræðingar til þess að fjalla um þessi áhersluatriði og gildi mannréttinda fyrir þróun, frið og öryggi í heiminum og hvernig Ísland getur haft áhrif langt umfram stærð í þessum mikilvæga málaflokki. Í málstofunni sköpuðust áhugaverðar og þarfar umræður og þátttakendur í pallborði drógu fram bæði það sem vel hefur gengið ásamt því að benda á hvar úrbóta er þörf.

Á tímum þar sem mannréttindi og friður standa víða höllum fæti er það skýr afstaða Íslands að varanlegur friður geti ekki ríkt án virðingar fyrir mannréttindum. Sem smáríki og herlaus þjóð eigum við beina hagsmuni af því að alþjóðalög séu virt og að grundvallarréttindi allra séu tryggð.

Fylgstu með umræðunni í upptökunni hér að neðan:

Fram komu:

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, flutti opnunarávarp áður en pallborðsumræður hófust. Pallborðinu stýrði Kári Hólmar Ragnarsson, dósent við Lagadeild Háskóla Íslands og pallborðið skipuðu Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, Bylgja Árnadóttir, yfirmaður mannréttindamála, utanríkisráðuneyti, Jón Gunnar Ólafsson, lektor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women Ísland.