6. mars 2025

Bandaríkin - traustur bandamaður?

Opinn fundur um samskipti Íslands og Bandaríkjanna föstudaginn 14. mars 12:00 – 13:15.
Opinn fundur um samskipti Íslands og Bandaríkjanna

📅 Föstudaginn 14. mars frá klukkan 12:00 – 13:15 í fyrirlestrasal Eddu

Á þeim sex vikum sem liðnar eru frá því að Donald Trump tók við völdum í Hvíta húsinu hafa orðið miklar og ófyrirséðar breytingar á utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Á þessum opna fundi munum við ræða hvaða áhrif yfirlýsingar og aðgerðir Trump hafa á alþjóðaviðskipti og varnir Íslands.

🇺🇸 Hvað þýðir það fyrir varnir Íslands að varnarskuldbindingar Bandaríkjanna gagnvart NATO og Evrópu séu í vafa? Hvernig er Ísland í stakk búið til þess að bregðast við sambærilegum kröfum og þeim sem Bandaríkjastjórn hefur beint gagnvart Grænlandi og Danmörku? Hvaða áhrif munu möguleg tollastríð hafa á íslenskan og alþjóðlegan efnahag? Eru að eiga sér stað grundvallar breytingar á frjálsum alþjóðaviðskiptum?

Þá verður rætt um að hvaða marki Trump hefur náð árangri með stefnubreytingum Bandaríkjanna í utanríkismálum og spáð í spilin um hvers sé að vænta í utanríkisstefnu Trump næstu fjögur árin.

🎤 Á þessum opna fundi munu Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, Erlingur Erlingsson, hernaðarsagnfræðingur, Katrín Ólafsdóttir, dósent við viðskipta- og hagfræðideild Háskólans í Reykjavík og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, alþingismaður og fyrrverandi utanríkisráðherra, ræða þessar spurningar og greina stöðuna sem upp er komin.

Fundarstjóri: Elín Margrét Böðvarsdóttir, fréttamaður á Stöð 2, Vísi og Bylgjunni.

Fundurinn fer fram á íslensku og er opinn öllum!