30. apríl 2025

Bandamenn eða andstæðingar? Samskipti Bandaríkjanna og Evrópu á öðru kjörtímabili Trumps

Opinn fundur mánudaginn 5. maí kl. 12:00-13:00 í fyrirlestrarsal Eddu (E-103), Háskóla Íslands
Um fundinn

Ríkisstjórn Donalds Trump hefur á fyrstu 100 dögum sínum verið harðorð og óvægin í yfirlýsingum sínum í garð Evrópuríkja. Þessi breytta afstaða hefur rekið fleyg í áralangt samstarf Bandaríkjanna og Evrópu og þvingað Evrópuríki til þess að taka örygggismál álfunnar til gagngerrar endurskoðunar.

Á þessum opna fundi mun Constanze Stelzenmüller fjalla um framtíð samskipta Bandaríkjanna og Evrópu. Hefur Evrópa efnahagslegt bolmagn og pólitískan vilja til að tryggja sínar eigin varnir, án stuðnings Bandaríkjanna? Hver er framtíð NATO og ESB í þessu umhverfi? Hvaða lærdóm geta ríki sem ekki eru hluti af báðum þessum stofnunum dregið af stöðunni sem upp er komin? Og hvaða þýðingu hefur þetta fyrir Ísland?

Constanze Stelzenmüller er sérfræðingur í öryggis- og varnarmálum Evrópu og Bandaríkjanna. Hún er Fritz Stern Chair hjá Center on the United States and Europe við Brookings Institution í Washington DC. Stelzenmüller er þekktur stjórnmálaskýrandi og greinahöfundur hjá m.a. Financial Times.

Fundarstjóri: Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í alþjóðasamskiptum og nýkjörin rektor Háskóla Íslands.

Fundurinn fer fram á ensku og eru öll velkomin!