5. feb. 2025

Annáll Alþjóðamálastofnunar 2024

Í þessari samantekt er farið yfir þau fjölmörgu verkefni á sviði alþjóða- og utanríkismála sem Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands hefur unnið árið 2024.

STARF ALÞJÓÐAMÁLASTOFNUNAR HÁSKÓLA ÍSLANDS ÁRIÐ 2024

Í þessari samantekt er farið yfir þau fjölmörgu verkefni á sviði alþjóða- og utanríkismála sem Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands hefur unnið árið 2024, en innan vébanda stofnunarinnar starfa Rannsóknasetur um smáríki, Rannsóknasetur um norðurslóðir og Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands.

Hér er hægt að opna PDF skjal með Annál Alþjóðamálastofnunar 2024: AMS samantekt 2024

Kveðja frá fráfarandi stjórnarformanni

Eitt af meginverkefnum allra fullvalda ríkja er að tryggja stöðu sína í heiminum, hafa áhrif á alþjóðlegum vettvangi – helst til góðs – og meta þær ógnir sem að steðja og tækifæri sem bjóðast. Þess vegna er öllum ríkjum, stórum sem smáum, nauðsynlegt að sinna rannsóknum á alþjóðamálum bæði til að auðvelda stjórnvöldum að móta skynsamlega stefnu í utanríkis- og öryggismálum og upplýsa almenning um þróun heimsmála. Á hinum Norðurlöndunum sinna sjálfstæðar rannsóknastofnanir þessum verkefnum sem eru styrktar rausnarlega á fjárlögum. Á Íslandi hefur Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands í reynd tekið að sér þetta hlutverk en hún hefur þróast á síðustu árum í öfluga rannsóknar- og fræðslustofnun. Nýtir stofnunin stöðu sína innan Háskóla Íslands til að tengja saman fræðimenn við háskóla hérlendis og erlendis, Utanríkisráðuneytið, Reykjavíkurborg og erlendar rannsóknastofnanir á sviði alþjóðamála, auk þess að sinna margs konar þjónustu vegna þátttöku Háskóla Íslands í alþjóðlegum verkefnum ekki síst á sviði norðurslóðarannsókna.

Af annál Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands yfir starf ársins 2024 má glöggt sjá hversu ótrúlega öflugt starf fáliðuð stofnun getur unnið. Verkefnin eru af ýmsu tagi allt frá stórum alþjóðlegum rannsóknarverkefnum sem stofnunin heldur utan um til fyrirlestra fyrir almenning. Öll tengjast þau þó þeim margháttuðu áskorunum sem heimurinn stendur frammi fyrir nú á tímum og stöðu Íslands í þeim ólgusjó. Í þeirri óvissu sem nú ríkir í alþjóðamálum er mikilvægara en nokkru sinni áður að styrkja bæði rannsóknir og fræðslu um alþjóðamál á Íslandi og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands er tilbúin til að leggja sín lóð á þær vogarskálar.

Ég hef átt þess kost að fylgjast með starfi Alþjóðamálastofnunar í meira en áratug, fyrst sem varamaður í stjórn og síðan sem formaður stjórnar frá árinu 2017. Nú þegar ég læt af formennskunni langar mig að nota tækifærið til að þakka forstöðumanni stofnunarinnar, Piu Hansson, og starfsmönnum hennar fyrir einkar ánægjulegt samstarf.

Guðmundur Hálfdanarson, fráfarandi stjórnarformaður Alþjóðamálastofnunar

Rannsóknaverkefni og samstarf

ARCADE - Akademía norðurslóða um leiðtogahæfni í félags- og umhverfismálum

ARCADE námskeiðið fór fram í annað sinn árið 2024 en námskeiðið er ætlað meistara- og doktorsnemum af öllum fræðasviðum og stuðlar að nýsköpun og samvinnu fræðasviða til að takast á við loftslagsáskoranir á norðurslóðum. Nemendur fá þjálfun í leiðtogahæfni og miðlun upplýsinga á námskeiðinu þar sem lögð er áhersla á fræðilega og hagnýta nálgun á alþjóðleg viðfangsefni.

Að námskeiðinu standa, auk Rannsóknaseturs um norðurslóðir, Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands, Grænlandsháskóli, Háskólinn í Tromsø, The Arctic Initiative við Kennedy skólann við Harvard háskóla og Hringborð norðurslóða. Í ár tóku 12 nemendur frá Íslandi, Noregi, Grænlandi, Finnlandi, Kanada, Hollandi, Svíþjóð og Bandaríkjunum þátt. Þeir sóttu þrjú vikulöng námskeið sem haldin voru á Íslandi, í Noregi og á Grænlandi, þar sem fjallað var um fjölbreytt áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum.

Nemendur unnu að einstaklings- og hópverkefnum undir handleiðslu sérfræðinga og kynntu niðurstöður sínar á Arctic Circle ráðstefnunni í október 2024. Verkefnin þeirra fjölluðu meðal annars um réttlæti í kolefnisföngunariðnaði og við orkuframkvæmdir á Íslandi, tækifæri og áskoranir í innviðauppbyggingu á Grænlandi og leiðir til að auka samfélagslega seiglu á norðurslóðum í ljósi loftslagsbreytinga.

ARCADE tromso 2024 1

Afvopnunarmál í brennidepli

Mikil óvissa ríkir í öryggis- og afvopnunarmálum í heiminum. Einn liður í því að svara þörfum alþjóðasamfélagsins í afvopnunarmálum er að þjálfa næstu kynslóð sérfræðinga á þessu sviði, en það er einmitt hlutverk The Arms Control Negotiation Academy, ACONA, alþjóðlegs 12 mánaða námskeiðs í samningatækni og afvopnunarmálum sem íslensk stjórnvöld hafa styrkt síðustu þrjú ár.

Þátttakendur á námskeiðinu í ár hafa fjölbreyttan bakgrunn og koma víða að, en sem dæmi má nefna að í árganginum 2024-2025 eru þátttakendur frá Bandaríkjunum, Svíþjóð, Kirgistan, Suður-Kóreu, Pakistan, Suður-Afríku, Rússlandi og Þýskalandi. Hingað til hafa fimm íslenskar konur tekið þátt í námskeiðinu sem starfa innan utanríkisþjónustunnar.

Til að auka þekkingu og efla tengslanet á þessu sviði heldur ACONA einnig alþjóðlega ráðstefnu ár hvert í Reykjavík í kjölfar síðustu lotu ACONA námskeiðsins. Ráðstefnan er kjörið tækifæri fyrir Ísland til að skapa vettvang til umræðu um friðar- og afvopnunarmál og leggja áherslu á mikilvægi þátttöku kvenna við samningaborðið.

Í ár fór ráðstefnan ACONA Conference Reykjavík fram í Veröld - húsi Vigdísar, föstudaginn 17. maí undir yfirskriftinni Negotiating the Future of Nuclear Diplomacy. Margot Wallström, var með opnunarerindi á ráðstefnunni en eftir það tók María Mjöll Jónsdóttir, skrifstofustjóri alþjóðapólitískramála í utanríkisráðuneytinu til máls. Auk Margot voru aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar í ár Bruce Turner, sendiherra og fastafulltrúi Bandaríkjanna við afvopnunarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og Melissa Parke, framkvæmdastjóri ICAN (samtök um alþjóðlega herferð til afnáms kjarnavopna), sem fengu friðarverðlaun Nóbels árið 2017.

Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands og Davis Center við Harvard-háskóla standa fyrir ACONA námskeiðinu í samstarfi við Wilson Center í Washington og The Peace Research Institute í Frankfurt.

Nánar um ACONA hér.

CMC-19 – Áfallastjórnun í COVID-19 faraldrinum: Stjórnarhættir og leiðtogahæfni

Alþjóðamálastofnun hlaut verkefnastyrk Rannís árið 2023 til að rannsaka viðbrögð Norðurlanda við Covid-19 faraldrinum. Verkefnið, sem er leitt af Baldri Þórhallssyni og Ásthildi Evu Bernharðsdóttur, leiðir saman norræna fræðimenn á sviði áfallastjórnunar sem greina og meta stefnumótun og viðbrögð Íslands, Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og Danmerkur við COVID-19 faraldrinum og deila reynslu og góðum starfsháttum milli landanna. Markmið verkefnisins er að styrkja viðnámsþrótt og samhæfingargetu innan og milli Norðurlandanna þegar kemur að áfallastjórnun. Samstarfshópurinn notast við alþjóðlegan rannsóknaramma á sviði áfallastjórnunar sem þróaður hefur verið til að greina ákvarðanatöku og stefnumótun við erfiðar aðstæður.

CMC-19-mynd-1920x830-3

Norrænt samstarfsnet um friðar- og alþjóðamál

Höfði friðarsetur vann að þróun norræns samstarfsnets um friðar- og alþjóðamál, Nordic Network on Peace and Geopolitics (NORDPEG), á árinu. Samstarfsnetið var formlega stofnað í nóvember 2024 en markmið þess er að leiða saman helstu rannsóknastofnanir og fræðimenn á Norðurlöndunum á sviði friðar- og átakafræða og alþjóðasamskipta til að styrkja rannsóknarsamstarf á þessu sviði. Aukin spenna í alþjóðakerfinu, stigmögnun átaka í heiminum og hnignun lýðræðislegra gilda í heiminum á undanförnum árum gerir það að verkum að brýn nauðsyn er á öflugum rannsóknum til að takast á við áskoranir framtíðar. Mikið af norrænum friðarrannsóknum einblína á borgarastyrjaldir og friðaruppbyggingu í þróunarlöndum en á þeim víðsjárverðu tímum sem við lifum í dag, með vaxandi samkeppni milli stórveldanna, er mikilvægt að fræðimenn tileinki sér að skoða alþjóðastjórnmálin út frá friðarfræðum. Skoða þarf sérstaklega hvaða diplómatísku leiðir Norðurlöndin geta nýtt sér til að stuðla að friði í heiminum.

Áhrif upplýsingaóreiðu á lýðræði í Evrópu

RECLAIM – Reclaiming Liberal Democracy in the Postfactual Age – er alþjóðlegt rannsóknaverkefni sem fjármagnað er af Horizon Europe áætlun Evrópusambandsins. Markmið verkefnisins er að rannsaka áhrif upplýsingaóreiðu á lýðræði í Evrópu. Niðurstöður verkefnisins verða nýttar til ráðlegginga um stefnumótun, fræðslu og aðgerða til að sporna gegn neikvæðum afleiðingum upplýsingaóreiðu fyrir lýðræðislega umræðu og grunnstoðir frjálslynds lýðræðis í nútímasamfélagi. Alþjóðamálastofnun heldur utan um verkefnið en Maximilian Conrad, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, leiðir það.  Auk Háskóla Íslands taka þrettán aðrir háskólar og stofnanir í Evrópu þátt í verkefninu.

Þann 13. mars stóð RECLAIM fyrir ráðstefnu sem haldin var af Alþjóðamálastofnuninni í Prag undir yfirskriftinni “Can Liberal Democracy be Reclaimed? Regulation and Journalism in the Postfactual Age”. Ráðstefnan var vel sótt og er hægt að nálgast upptöku og skýrslu frá henni á heimasíðu verkefnisins. Í október skipulagði verkefnið lokaðan fund með stefnumótandi aðilum í Brussel í samstarfi við TEPSA “RECLAIM Breakfast Roundtable: Democracy Through Policy Dialogue”. Á fundinum gafst rannsakendum RECLAIM verkefnisins tækifæri til að kynna rannsóknir sínar og frumniðurstöður þeirra fyrir stefnumótandi aðilum í Brussel og ræða hvernig þær muni nýtast best við stefnumótun á komandi árum. Enn fremur stóð verkefnið fyrir útgáfu bókar, fræðigreina og skýrslna á árinu og má finna alla útgáfu verkefnisins á heimasíðu þess www.reclaim.hi.is.

Sumarskóli Rannsóknaseturs um smáríki

Rannsóknasetur um smáríki við Háskóla Íslands stóð fyrir sumarskóla dagana 12.-17. ágúst. Yfirskrift skólans var “Small States and Current Security Challenges in the North Atlantic” og var hann styrktur af Nordplus Higher Education áætluninni. Skólinn hefur verið haldinn árlega frá árinu 2003 og að þessu sinni var megináhersla lögð á öryggis- og varnarmál smáríkja í Norður-Atlantshafi. Framúrskarandi nemendur og kennarar frá 10 háskólum á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum tóku þátt í skólanum að þessu sinni.

Verkefni tengd Háskóla norðurslóða (UArctic)

Háskóli Íslands er virkur aðili innan Háskóla norðurslóða (UArctic) og sinnir Alþjóðamálastofnun fjölmörgum verkefnum sem tengjast samstarfinu beint. Á árinu 2022 var Gunnar Stefánsson, prófessor við iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild ráðinn í stöðu aðstoðarrektors vísinda hjá UArctic. Alþjóðamálastofnun vinnur náið með Gunnari að þeim verkefnum sem heyra undir stöðu hans sem öll miða að því að efla rannsóknir á norðurslóðum. Meðal verkefna sem Alþjóðamálastofnun heldur utan um er mat umsókna vegna árlegrar styrkveitingar Frederik Paulsen verðlaunanna ásamt því að halda utan um mat umsókna í dönskum, norskum og kanadískum styrkjaáætlunum innan UArctic. Þá hefur Alþjóðamálastofnun séð um umsýslu umsóknarferla fyrir nýja fræðimenn á sviði norðurslóðarannsókna (UArctic Chairs), auk þess að koma að mótun nýrrar rannsóknastyrkjaáætlunar sem tilkomin er af nýju samstarfi milli Lloyd’s Register Foundation (LRF) og Háskóla norðurslóða.

Sterkari staða norðurslóðarannsókna á Íslandi

Alþjóðamálastofnun hlaut styrk fyrir verkefnið Sterkari staða norðurslóðarannsókna á Íslandi úr Samstarfssjóði háskólanna 2024. Verkefnið er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Rannís og Norðurslóðanetsins. Verkefnið mun halda fjórar þematengdar vinnustofur á næstu tveimur árum í því skyni að efla samstarf innlendra aðila í tengslum við málefni norðurslóða. Fulltrúum allra innlendra háskóla- og rannsóknastofnana verður boðið að taka þátt í vinnustofunum en þar verður áhersla lögð á 1) orkuskipti og áhrif þeirra á samfélög, 2) aðlögun að loftslagsbreytingum, 3) málefni hafsins og alþjóðlegt vísindasamstarf og 4) umhverfisvernd og sjálfbæra nýtingu á auðlindum.

ARCADE4

Opnir fundir og ráðstefnur

Hefur hinn vestræni heimur misskilið aðgerðir Rússlands?

Alþjóðamálastofnun  og sendiráð Litháens á Íslandi buðu til opins fundar 7. febrúar. Á fundinum var rætt um vanmat vestrænna ríkja á áætlunum Rússa í Georgíu árið 2004 og við hernám Krímskagans árið 2014, hvaða lærdóm megi draga af innrás Rússa í Úkraínu og hvort grundvallarbreytingar hafi orðið á viðhorfi og aðgerðum vestrænna ríkja gagnvart aðgerðum Rússlands.

Bjarni Benediktsson, þáverandi utanríkisráðherra Íslands flutti opnunarerindi og í framhaldi tóku við pallborðsumræður. Þátttakendur í pallborði voru þau Lucie Samcová-Hall Allen, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, Asta Radikaite, sendiherra Litháens á Íslandi, Gerard Pokruszyński, sendiherra Póllands á Íslandi og Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Framtíð breskra stjórnmála

Í mars hélt Alþjóðamálastofnun opinn fund um framtíð breskra stjórnmála í samstarfi við Félag stjórnmálafræðinga og Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

Á þessum opna fundi fjölluðu þeir Matt Beech, sérfræðingur í breskum stjórnmálum og forstöðumaður Centre for British Politics við Háskólann í Hull og Kevin Hickson, sérfræðingur í breskum stjórnmálum við háskólann í Liverpool um hið breytta pólitíska landslag breskra stjórnmála.

Alþjóðasamvinna á krossgötum: Hvert stefnir Ísland?

Árleg ráðstefna Alþjóðamálastofnunar, utanríkisráðuneytisins og Norræna hússins um alþjóða- og utanríkismál Íslands var haldin miðvikudaginn 24. apríl í Norræna húsinu í samstarfi við Félag stjórnmálafræðinga og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála. Boðið var upp á þétta og áhugaverða dagskrá um alþjóðamál og helstu áskoranir og tækifæri Íslands í utanríkismálum. Metþátttaka var á ráðstefnunni, en fullt var út úr dyrum allan daginn.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, opnaði ráðstefnuna og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flutti hátíðarerindi um þær breytingar sem orðið hafa í alþjóðasamfélaginu í hans forsetatíð.

Í fyrstu málstofu ráðstefnunnar var sjónum beint að stöðu Íslands í varnar- og öryggismálum og þeirri breyttu heimsmynd sem blasir við okkur eftir innrás Rússlands í Úkraínu og stigmögnun átaka fyrir botni Miðjarðarhafs. Erlingur Erlingsson, hernaðarsagnfræðingur og Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands fluttu stutt opnunarerindi en eftir það tóku þau þátt í pallborðsumræðum með Diljá Mist Einarsdóttur, formanni utanríkismálanefndar og þingmanni Sjálfstæðisflokksins, Jónasi Allanssyni, skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og Ragnari Hjálmarssyni, doktor í stjórnarháttum. Umræðum stjórnaði Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar.

Í annarri málstofu dagsins var rætt um aukna skautun í stjórnmálum á alþjóðavísu og hvaða áhrif hún hefur á samfélög og lýðræði erlendis og hérlendis meðal annars varðandi samfélagsumræðu á Íslandi um málefni hælisleitanda og flóttafólks. Dylan Andres Herrera Chacon, doktorsnemi við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands flutti erindi en eftir það tóku við pallborðsumræður. Auk Dylans voru þátttakendur í pallborði Bergþóra Snæbjörnsdóttir, rithöfundur og baráttukona fyrir mannréttindum, Bryndís Haraldsdóttir, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs og þingmaður Sjálfstæðisflokksins Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst og Guðrún Hálfdánardóttir, blaða- og dagskrárgerðarmaður á RÚV. Jón Gunnar Ólafsson, nýdoktor í fjölmiðlafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands stjórnaði umræðum.

Í þriðju málstofu ráðstefnunnar var kastljósinu beint að Evrópu og Evrópusamvinnunni en í ár eru 30 ár liðin frá því að EES samningurinn tók gildi. Í málstofunni var því velt upp hvers virði samningurinn er í dag og hvaða áhrif hann hefur haft á íslenskt samfélag. Pernille Rieker, sérfræðingur hjá norsku alþjóðamálastofnuninni (NUPI) flutti erindi, en eftir það fóru fram pallborðsumræður. Þátttakendur í pallborðsumræðum voru Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís, Bergþóra Halldórsdóttir, frá Borealis Data Center, Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna og Samuel Ulfgard, staðgengill sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi. Auðunn Atlason, sendiherra í utanríkisráðuneytinu stýrði umræðum.

Í næstsíðustu málstofu dagsins var fjallað um ávinning og áhættu gervigreindar fyrir lýðræði. Farið var yfir hvernig gervigreindin getur aukið skilvirkni og borgaralega þátttöku en einnig alið á sundrung og skautun. Niels Nagelhus Schia, rannsóknaprófessor við norsku alþjóðamálastofnunina (NUPI)  flutti opnunarerindi. Eftir erindi Schia fóru fram pallborðsumræður þar sem ásamt honum tóku þátt Brynjólfur Borgar Jónsson, framkvæmdastjóri Datalab, Halldóra Mogensen, formaður framtíðarnefndar Alþingis, Páll Rafnar Þorsteinsson, verkefnastjóri við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands og Theódór Ragnar Gíslason, meðstofnandi og framkvæmdastjóri tækni og nýsköpunar hjá Syndis og stofnandi Defend Iceland. Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar sá um málstofustjórn.

Í lok dags tóku formenn og fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi þátt í pallborðsumræðum um stöðu Íslands í alþjóðakerfinu, varnar- og öryggismál og utanríkisstefnu Íslands.

NATO í 75 ár: Samvinna í þágu öryggis

Utanríkisráðuneytið í samstarfi við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Varðberg, samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál, buðu til hátíðarfundar í tilefni 75 ára afmælis Atlantshafsbandalagsins í Hátíðarsal Háskóla Íslands þann 13. maí frá kl. 10:00 til 12:00.

Á fundinum var farið yfir hvernig mikilvægi bandalagsins hefur aukist jafnt og þétt, ekki síst vegna vaxandi spennu milli stórveldanna og þeirrar breyttu heimsmyndar sem við okkur blasir í dag.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, flutti opnunarávarp en þar að auki ávarpaði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, og utanríkisráðherra Litháens, Gabrielius Landsbergis, fundinn um fjarfundarbúnað. Þá tóku við pallborðsumræður um hlutverk bandalagsins í nútíð og framtíð og þátttöku Íslands í starfsemi bandalagsins. Í fyrra pallborðinu var rætt um helstu áskoranir NATO í dag. Í seinna pallborði dagsins var sjónum beint að framtíðarhorfum sambandsins.

Kynningarfundur Snjallræðis - Frá hugmynd til áhrifa

Haldinn var kynningarfundur um Snjallræði á Hafnartorgi föstudaginn 17. maí þegar opnað var fyrir umsóknir í vaxtarrýmið.

Boðið var til skemmtilegrar kvöldstundar þar sem markmiðið var að leiða saman frumkvöðla á sviði samfélagslegrar nýsköpunar og einstaklinga sem búa yfir hugmyndum sem geta bætt samfélagið. Boðið var upp á áhugaverðar pallborðsumræður þar sem rætt var um stöðu og áskoranir samfélagslegrar nýsköpunar og frumkvöðlaumhverfisins hér á landi. Þátttakendur í pallborði voru Arnar Sigurðsson, stofnandi East of Moon, Unnur Kolka, stofnandi Svepparíkisins og Óli Örn Eiríksson, teymisstjóri atvinnu- og borgarþróunar hjá Reykjavíkurborg.

Á fundinum gafst einnig tækifæri til að fræðast nánar um Snjallræði í samtali við verkefnastjóra Snjallræðis, leiðbeinendur og samstarfsaðila vaxtarrýmisins.

Baráttan um Hvíta húsið: Áhrif skautunar á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum

Í maí hélt Alþjóðamálastofnun opinn fund í samstarfi við bandaríska sendiráðið á Íslandi. Þar fjallaði Dr. James A. Thurber, prófessor emeritus við American University í Washington D.C. um áhrif skautunar á forsetakosningarnar sem fram fóru í Bandaríkjunum í nóvember 2024.

Skiptir framtíðin máli? Samtal um Sáttmála framtíðarinnar

Höfði friðarsetur tók þátt í að skipuleggja opinn fund um Sáttmála framtíðarinnar í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, utanríkisráðuneytið, forsætisráðuneytið, Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu (UNRIC), Barna- og ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og Landssamband ungmennafélaga þann 6. júní  í Mannréttindahúsinu við Sigtún.

Á þessum samtalsfundi voru drög sáttmálans kynnt og þemu hans rædd í umræðuhópum. Viðburðinum var þannig ætlað að auka þekkingu á Sáttmála framtíðarinnar, stuðla að áhugaverðum umræðum sem virkja þátttöku ungs fólks og borgarasamfélagsins og valdefla þessa hópa í málefnum sem þau varðar.

EES og innri markaðurinn: Staða og horfur

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands stóð að opnum fundi um stöðu og horfur EES og innri markaðarins í samstarfi við utanríkisráðuneytið í tilefni af 30 ára afmæli EES samstarfsins.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, opnaði fundinn en frummælendur  voru Enrico Letta, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu og höfundur skýrslu um framtíð innri markaðarins, og Line Eldring, formaður EES-nefndar norskra stjórnvalda sem skilaði nýlega af sér skýrslu um þróun og reynslu Noregs af EES-samstarfinu síðustu ár. Að loknum erindum fóru fram pallborðsumræður þar sem leitast var við að setja málefnið í íslenskt samhengi.

EES_safnahús

NATO í 75 ár: Áskoranir og framtíðarsýn

Alþjóðamálastofnun hélt opinn fund í Þjóðminjasafni Íslands í samstarfi við sendiráð Noregs og sendiráð Kanada á Íslandi.

Á fundinum var rætt um þær áskoranir sem NATO stendur frammi fyrir í öryggisumhverfi sínu nú í kjölfar ólöglegrar innrásar Rússa í Úkraínu. John Andreas Olsen, ofursti í norska flughernum og prófessor við norsku varnarmálastofnunina og Sarah Tarry, forstöðumaður deildar varnarmálastefnu og viðbúnaðar við höfuðstöðvar NATO fluttu erindi á fundinum. Þau eru höfundar bókarinnar Routledge Handbook of NATO, þar sem farið er yfir pólitíska og hernaðarlega þróun bandalagsins, áhrif þess á söguna og mikilvægi bandalagsins til skemmri og lengri tíma.

Eftir erindi þeirra fóru fram umræður þar sem Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og alþingismaður og höfundur skýrslunnar Norræn utanríkis- og öryggismál 2020 – Loftslagsbreytingar, fjölþátta- og netógnir og áskoranir í fjölþjóðasamstarfi innan ramma alþjóðalaga setti erindi Olsens og Tarry í samhengi við Ísland og þátttöku Íslands í NATO.

Árleg friðarráðstefna Höfða friðarseturs

Árleg friðarráðstefna Höfða friðarseturs Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands í samstarfi við utanríkisráðuneytið var haldin í Iðnó menningarhúsi þann 10. október frá kl 10:00 – 17:00 undir yfirskriftinni The Imagine Forum: Bridging Divides – Fostering a Dialogue for Peace.

Á ráðstefnunni var lögð áhersla á að skoða hvernig við getum unnið að friðsamlegum lausnum átaka nú þegar hriktir í stoðum þeirra grunngilda sem alþjóðakerfið byggir á. Rætt var um mikilvægi þess að stuðla að opinskáu og heiðarlegu samtali um friðarferla og friðaruppbyggingu til að finna nýjar leiðar til að stuðla að varanlegum friði.

Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra og staðgengill ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins og Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor og rannsóknarstjóri Höfða friðarseturs héldu opnunarerindi.

Svitlana Zalishchuk, ráðgjafi stjórnvalda í Úkraínu á sviði utanríkis- og alþjóðamála og fyrrum þingkona flutti opnunarávarp ráðstefnunnar um mikilvægi þess að standa vörð um lýðræðisleg gildi og mannréttindi í Úkraínu. Eftir erindið stjórnaði Rakel Þorbergsdóttir, fyrrum fréttastjóri RÚV, samtali milli Svitlönu og Hermanns Arnars Ingólfssonar, sendiherra, um ástandið í Úkraínu. Bineta Diop, erindreki Afríkusambandsins um konur, frið og öryggi, hélt annað lykilerindi ráðstefnunnar um mikilvægi þess að konur komi að friðaruppbyggingu og friðarumleitunum í Afríku.

Friðarráðstefnan í ár samanstóð af fjórum málstofum. Auk þess að ræða áskoranir og mögulegar aðgerðir til að koma á friði í Úkraínu, Súdan og fyrir botni Miðjarðarhafs, var rætt almennt um friðarferla og hvort þær aðferðir sem notast hefur verið við hingað til séu að virka, eða hvort  hugsa þurfi friðarferla upp á nýtt.

Unga fólkið átti orðið í lok ráðstefnunnar. Guðrún Elsa Tryggvadóttir, lögfræðingur hjá Reykjavíkurborg kynnti verkefni Reykjavíkurborgar Ungir leiðtogar. Markmið verkefnisins er að valdefla ungt fólk af erlendum uppruna í Reykjavík og auka þátttöku þeirra í ákvörðunartöku. Þrjú ungmenni úr verkefninu, Leona Iguma, Mia Ðuric og Noah Newton Obermair deildu sinni sýn á hvað þeim þætti mikilvægt þegar kemur að inngildingu ungmenna af erlendum uppruna.

Eftir kynningar frá ungu leiðtogunum kynnti Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar vinningshafa í myndlistarsamkeppni Mayors for Peace, “What is Peace to me” og veitti vinningshöfum viðurkenningu.

Friðarráðstefna

Ársfundur tengslanets norrænna kvenna í friðarumleitunum og sáttamiðlun

Höfði friðarsetur vann að hugmyndavinnu, dagskrárgerð og skipulagi ársfundar Nordic Women Mediators í samstarfi við Nordic Women Mediators á Íslandi og utanríkisráðuneytið.

Ársfundurinn var haldinn í tengslum við árlega friðarráðstefnu Höfða friðarseturs The Imagine Forum og fór fundurinn fram daginn eftir friðarráðstefnuna. Á fundinum voru pallborðsumræður um hvernig hægt er að efla þátttöku kvenna í friðarumleitunum og friðaruppbyggingu en í kjölfarið voru umræður þátttakenda um þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í dag í friðarumleitunum meðal annars í Palestínu, Úkraínu og Súdan.  Eftir hádegi var vinnustofa þar sem sjónum var beint sérstaklega að þeim aðferðum sem helst er beitt við friðarumleitanir og friðaruppbyggingu og rætt með gagnrýnum hætti hvernig mögulegt væri að þróa þær aðferðir í takt við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í dag.

Áskoranir á norðurslóðum: Mikilvægi samstarfs

Rannsóknasetur um norðurslóðir, Háskóli Íslands og Háskóli norðurslóða (UArctic) stóðu fyrir hliðarviðburði annað árið í röð við Hringborð norðurslóða sem haldið var miðvikudaginn 16. október í Hátíðarsal Háskóla Íslands.

Málþingið samanstóð af þrem málstofum og erindum þar sem innlendir og erlendir fræðimenn og sérfræðingar ræddu m.a. stöðugleika, frið og þróun á norðurslóðum, rannsóknasamstarf á svæðinu og öryggi á hafsvæðum.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands opnaði málþingið og Lars Kullerud, forseti Háskóla norðurslóða (UArctic) hélt opnunarræðu. Eftir það tók við fyrsta málstofan þar sem farið var yfir stöðu stjórnarhátta á norðurslóðum. Sérstök áhersla var lögð áhrif breytts öryggislandslags á norðurslóðum eftir innrás Rússlands í Úkraínu og aukinn áhuga alþjóðasamfélagsins á norðurslóðum.

Önnur málstofa dagsins fjallaði um mikilvægi vísindasamstarfs á norðurslóðum með tilliti til þeirra flóknu umhverfis-, öryggis- og félagslegu áskorana sem að svæðið stendur frammi fyrir. Sérstök áhersla var lögð á að greina stöðu vísindalegs samstarfs við Rússland eftir innrásina í Úkraínu. Því var jafnframt velt upp hvernig hægt er að stuðla að bættri inngildingu þess fjölbreytta hóps sem býr á norðurslóðum við þekkingarsköpun á svæðinu. Melody Brown Burkins, forstöðumaður Stofnunar Norðurskautsrannsókna hjá Dartmouth Háskóla hélt opnunarerindi. Síðasta málstofan fjallaði um öryggi á hafi með tilliti til áskorana vegna aukinnar skipaumferðar á norðurslóðum í tengslum við vöruflutninga, fiskveiðar og siglingar skemmtiferðaskipa. Viggó Sigurðsson, verkefnastjóri hjá aðgerðasviði Landhelgisgæslunnar hélt opnunarerindi og í kjölfarið fylgdu pallborðsumræður. Katrín Jakobsdóttir, fyrrum forsætisráðherra, flutti lokaerindi ráðstefnunnar þar sem hún kynnti nýtt verkefni á vegum Hringborðs norðurslóða sem kallast samtal um heimskautasvæðin (e. Polar Dialogue).

Þátttaka á þingi Hringborðs norðurslóða

Alþjóðamálastofnun stóð fyrir fjórum málstofum á þingi Hringborðs norðurslóða sem fram fór dagana 19. - 21. október. Málstofurnar beindust að fjölbreyttum og brýnum málefnum sem snerta norðurslóðir og byggðu á virku samstarfi okkar við innlenda og erlenda samstarfsaðila.

Í fyrstu málstofunni var rætt um mikilvægi rannsóknarsamvinnu á vestnorræna svæðinu. Málstofan var unnin í samstarfi við Rannís, Norðurslóðanet Íslands, Rannsóknarráð Grænlands og Rannsóknarráð Færeyja. Í annarri málstofu var fjallað um vísindasamstarf og þróun öryggismála á norðurslóðum og í þriðju málstofunni var sjónum beint að mikilvægi samstarfs til að tryggja öryggi á hafsvæðum á norðurslóðum. Málstofan var haldin í samstarfi við Háskóla Norðurslóða (UArctic). Fjórða málstofan var tileinkuð lokakynningum fjögurra hópa sem tóku þátt í ARCADE verkefninu. (Sjá nánari upplýsingar um ARCADE hér að ofan).

Utanríkisstefna á umbrotatímum

Alþjóðamálastofnun, Varðberg – samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál, Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands og Félag stjórnmálafræðinga stóðu fyrir kosningafundi um utanríkis- og varnarmál í Auðarsal í Veröld - húsi Vigdísar, fimmtudaginn 14. nóvember 2024.

Fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem buðu fram lista í öllum kjördæmum í alþingiskosningunum í nóvember sátu fyrir svörum og ræddu stefnu sína í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum.

Fundarstjórar voru þau Bogi Ágústsson, fréttamaður RÚV og Rakel Þorbergsdóttir, fyrrverandi fréttastjóri RÚV.

Lokadagur Snjallræðis

Lokadagur Snjallræðis var haldinn í Tjarnarsalnum í Ráðhúsi Reykjavíkur 13. desember. Á þessari uppskeruhátíð Snjallræðis kynntu teymin hugmyndir sínar og afrakstur síðustu mánaða.

Teymin átta sem fengu brautargengi í Snjallræði árið 2024 voru:

  • Animara: Hannar hentug og stílhrein föt fyrir einstaklinga með hreyfihömlun, sem eykur sjálfstæði og minnkar álag á umönnunaraðila.
  • SKIMA: Þróar hugbúnað til að einfalda sálfræðilegar athuganir fyrir börn, sem bætir nákvæmni og skilvirkni í greiningu.
  • CodonRed: Skimar eftir stökkbreytingum og skemmdum í erfðaefni.
  • Velferðalag: Miðar að því að bæta líðan og auka almenna þekkingu með jákvæðum inngripum, byggt á jákvæðri sálfræði.
  • CHEMeFuel: Þróar orkurík lífeldsneyti úr úrgangsefnum og grænu metanóli fyrir sjálfbæran flugrekstur, með það að markmiði að draga úr kolefnislosun.
  • Vitkast: Skólasamfélagið hefur lengi kallað eftir betra og fjölbreyttara námsefni. Vitkast er gagnvirkur námsvefur með verkefnum sem stækkar verkfærakistu kennara til að ýta undir áhuga nemenda og styrkja færni þeirra til framtíðar.
  • Textílbarinn: Safnar og selur ónotaðan textíl auk þess að kenna hvernig má gera við og endurnýta slíkan textíl til að draga úr úrgangi.
  • NúnaTrix: Býr til fræðslutölvuleiki fyrir börn sem þurfa að gangast undir læknismeðferð og rannsóknir, með það að markmiði að minnka kvíða og bæta heilsulæsi.
  • Heillaspor Center: Stefnir á stofnun miðstöðvar á Íslandi fyrir snemmtæka meðferð við átröskunum.
  • ALDA Clinical Technologies: Þróar máltæknitól fyrir snemmtæka greiningu og eftirfylgni með taugahrörnunarsjúkdómum og málröskunum í minni tungumálum.
  • Hvað nú?: Einfaldar syrgjendum úrlausn hinna fjölmörgu verkefna sem fylgja andláti ástvinar með því að auðvelda aðgengi að upplýsingum og ráðgjöf.