24. mars 2025

Alþjóðamálastofnun tekur þátt í loftslagsverkefni á Kyrrahafseyríkinu Samóa

Verkefnið snýst um þróun og innleiðingu nýs matstækis fyrir stjórnarhætti í loftslagsmálum lítilla eyríkja, með áherslu á þróunarríki sem standa frammi fyrir miklum áskorunum vegna loftslagsbreytinga.
Um verkefnið

Alþjóðamálastofnun tekur nú þátt í verkefni um þróun og innleiðingu nýs matstækis fyrir stjórnarhætti lítilla eyríkja í loftslagsmálum. Matstækið er hannað til að meta og efla aðlögun lítilla eyríkja að loftslagsbreytingum, ekki síst þróunareyríkja. Fulltrúi Alþjóðamálastofnunar í verkefninu er Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisfræðingur og fyrrum umhverfis- og auðlindaráðherra.

Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, IPCC, hefur ítrekað bent á að eyjar í Kyrrahafi séu á meðal þeirra svæða sem loftslagsbreytingar munu valda hve verstu afleiðingum á mannleg samfélög ef fram fer sem horfir. Smærri eyjar gætu mögulega horfið undir sæ og áhrifin á strandhéruð annarra eyja þar sem þorri íbúa býr orðið gríðarlega neikvæð. Þetta er meðal annars vegna aukinnar tíðni eða styrkleika hitabeltisstorma, hækkunar yfirborðs sjávar og eyðingu strandlengjunnar. Sum þessara eyríkja eru einnig skilgreind sem þróunarríki og geta þeirra þar af leiðandi mismikil til að aðlagast breytingunum. Því er mikilvægt að rannsaka hver viðnámsþróttur þeirra gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga er og hvernig megi auka getu þeirra til viðbragða.

Verkefnið er unnið undir forystu Smáríkjaseturs háskólans á Möltu og utanríkisráðuneytis landsins og byggir á mælikvarða um varnarleysi og viðnámsþrótt gagnvart loftslagsbreytingum . Þetta er í fyrsta skipti sem slíkt loftslagsmatstæki er þróað og innleitt fyrir smáríki. Samóaeyjar urðu fyrir valinu sem fyrsta ríkið sem matstækið er notað fyrir.

Verkefninu er almennt ætlað að  styrkja stjórnskipulag og betrumbæta stefnumótun fyrir loftslagsaðlögun og mótvægisaðgerðir í smáríkjum. Stefnt er að því leggja fram ráðleggingar fyrir stefnumótun á Samóa sem aukið gæti getu landsins til að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga. Með verkefninu verður einnig til rammi fyrir matstæki í öðrum ríkjum sem viðkvæm eru fyrir loftslagsbreytingum, ekki síst í litlum eyríkjum. Verkefnið stuðlar þannig að aukinni samvinnu og upplýsingamiðlun milli þessara eyríkja.  Jafnframt er matstækinu ætlað að aðstoða stjórnvöld, samfélög og félagasamtök í hverju eyríki fyrir sig til að styðja við nauðsynlegar loftslagsaðgerðir.

Í byrjun mars voru haldnar vinnustofur í Apía,höfuðborg Samóaeyja, með hagsmunaaðilum og ráðuneyti, stofnanir og félagasamtök heimsótt. Alþjóðamálastofnun tók þátt í þeirri vinnu. Gögnum var safnað um varnarleysi og viðnámsþrótt Samóa gagnvart loftslagsbreytingum, til dæmis um hversu viðkvæmar eyjarnar eru gagnvart breytingum í hitastigi, úrkomu, hækkun yfirborðs sjávar og strandrofi og hvergeta samfélaganna er til að bregðast við áhrifum slíkra breytinga. Þar má t.d. nefna hversu skilvirk stjórnvöld eru, hvaða áætlanir eru til varðandi viðbrögð, hvernig þeim er hrint í framkvæmd og fylgt eftir og hver aðkoma samfélaga, hagsmunaaðila og félagasamtaka er. Þá er því velt upp hvað standi mögulega í vegi fyrir árangursríkri aðlögun og hvernig megi auka viðnámsþrótt á Samóa gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga.

Í byrjun apríl verður haldin vinnustofa á Möltu þar sem rannsakendur stofnananna ásamt hagsmunaaðilum á Samóa fara yfir frumniðurstöður verkefnisins. Stefnt er að því að ljúka verkefninu í lok apríl.

Verkefnið er styrkt af ríkisstjórnum Íslands, Liechtenstein og Noregs í gegnum Uppbyggingarsjóð EES og Noregs.