Um okkur

Rannsóknasetur um smáríki starfar undir Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands. Setrið var stofnað árið 2001 og er meginmarkmið setursins að stuðla að rannsóknum og menntun um smáríki og beita sér fyrir framgangi smáríkjafræða á Íslandi og í alþjóðlegu samstarfi. Sérstaða Rannsóknaseturs um smáríki felst fyrst og fremst í áherslum setursins á smáríkjarannsóknir í víðum skilningi. Smáríkjafræði hafa vaxið í gegnum árin og rutt sér til rúms innan ólíkra fræðigreina og hefur Rannsóknasetur um smáríki verið leiðandi í þessari þróun.

Rannsóknasetur um smáríki hefur hlotið fjölda erlendra styrkja og viðurkenninga í gegnum árin sem hafa gert setrinu kleift að byggja upp stórt net samstarfsaðila um allan heim sem vinnur með setrinu að rannsóknum og gerð kennsluefnis. Frá árinu 2003 hefur setrið haldið sumarskóla í smáríkjafræðum við Háskóla Íslands þar sem fjölbreyttur nemendahópur frá evrópskum háskólum hefur lært um tækifæri og áskoranir smáríkja í alþjóðakerfinu. Árið 2013 var setrið útnefnt sem Jean Monnet öndvegissetur (e. Jean Monnet Centre of Excellence), og var fyrsta rannsóknasetur á Íslandi til að hljóta þessa eftirsóttu nafnbót. Rannsóknasetur um smáríki vinnur náið með Rannsóknasetri um norðurslóðir og Höfða friðarsetri, sem bæði heyra undir Alþjóðamálastofnun, að fjölbreyttum verkefnum á sviði rannsókna og menntunar.

Smáríkið Ísland

Hver er staða Íslands í alþjóðakerfinu í dag og hverjar eru stærstu áskoranir landsins þegar litið er fram á veginn? Mikil umskipti hafa orðið á undanförnum árum í alþjóðakerfinu og hefur Ísland ekki farið varhluta af þeim. Eftir lok Kalda stríðsins og brotthvarf hersins hefur Ísland þurft að leita nýrra bandamanna. Í viðskiptum og efnahagsmálum hafa samskipti Íslands færst í auknum mæli til Evrópu og í öryggis- og varnamálum hefur norræn samvinna orðið æ viðameiri. Samskipti við ríki Asíu hafa einnig aukist mikið. Alþjóðakerfið er í stöðugri þróun og smáríkið Ísland þarf að bregðast við nýjum áskorunum.

Þetta kallar á nýjar rannsóknir sem snúa að Íslandi og stöðu þess í alþjóðakerfinu - smáríki sem stendur utan við innsta kjarna Evrópusamrunans. Stærsti og umfangsmesti alþjóðasamningur sem Ísland er aðili að er EES-samningurinn. Samningurinn er í stöðugri þróun og er því nauðsynlegt að viðhalda stöðugum rannsóknum tengdum honum.. Einnig hefur norræn samvinna aukist og færst inn á ný svið á undaförnum árum, eins og öryggis- og varnarmál. Þessi aukna samvinna kallar á nýjar rannsóknir um stöðu Íslands í þessu nýja norræna umhverfi og hver ávinningur ríkjanna er af þessu samstarfi.

self.image.title

Smáríki í Evrópu: Tækifæri og áskoranir í Evrópusamvinnunni

Flest smáríki í Evrópu hafa kosið að ganga í Evrópusambandið eða taka þátt í Evrópusamrunanum á einhvern hátt til þess að vega upp á móti kerfislægum áskorunum sem þau standa frammi fyrir og má rekja til smæðar ríkjanna. Smáríkin telja sig yfirleitt standa betur að vígi og eiga meiri möguleika til áhrifa með því að starfa innan fastmótaðs regluverks Evrópusamrunans, heldur en utan þess þar sem stærð og styrkur er óbeislaður í samskiptum milli ríkja.

Rannsóknasetur um smáríki hefur frá stofnun unnið að verkefnum sem leggja áherslu á þetta rannsóknasvið. Unnið hefur verið í samstarfi við fjölda evrópskra háskóla og fræðimanna og er samstarfsnet setursins umfangsmikið á þessu sviði. Meðal þess sem einblínt hefur verið á: Hvað eru smáríki og hvernig getum við skilgreint þau? Hvernig birtast einkenni smáríkja í vinnu þeirra innan ESB og hvaða aðferðum geta þau beitt til þess að hafa áhrif innan stofnana þess? Geta smáríki nýtt þessi einkenni sín sér til framdráttar í samskiptum við önnur ríki? Hvert er hlutverk einstaklinga og leiðtoga innan smáríkja og hvernig er það frábrugðið hlutverki sömu aðila í stærri ríkjum?

Rannsóknasetrið hefur í gegnum árin þróað og búið til kennsluefni á þessu sviði sem er aðgengilegt öllum á vefsíðu stofnunarinnar. Ennfremur hefur setrið gefið út fjölda fræðigreina tengt þessu efni.

self.image.title

Smáríki og skjól í alþjóðakerfinu

Rannsóknasetur um smáríki hefur í gegnum árin fyrst og fremst einblínt á smáríki í Evrópu í rannsóknum sínum og samstarfsverkefnum. Á undanförnum árum hefur áhugi á smáríkjafræðum aukist mikið og hefur smáríkjasetrið unnið með fræðimönnum um allan heim að verkefnum tengdum stöðu smáríkja í alþjóðakerfinu. Þessi aukni áhugi á smáríkjafræðum kallar á ný verkefni og nýjar samanburðarrannsóknir á stöðu smáríkja milli ólíkra heimshluta.

Í sögulegu samhengi hafa smáríki oftast leitað skjóls hjá stærri nágrannaríkjum til þess að vega upp á móti veikleikum sínum, eins og litlum heimamarkaði, takmörkuðu pólitísku afli og færri tækifærum til félagslegra og menningarlegra samskipta. Eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar hefur svæðis- og alþjóðastofnunum fjölgað mikið og hafa flest smáríki á undanförnum áratugum kosið að leita skjóls innan þeirra frekar en hjá einu stóru nágrannaríki.

Flest öll smáríki taka þátt í svæðis- og alþjóðastofnunum ásamt því að mynda bandalög með stærri nágrannaríkjum. Enn hefur þó lítið verið rannsakað hvernig þau hafa hagað sér í þessu tilliti og að hve miklu leyti þau sækja sér pólitískt, efnahagslegt og félagslegt skjól í þessum samskiptum. Rannsóknasetur um smáríki mun á næstu árum efla rannsóknir sínar á þessu sviði og leggja sérstaka áherslu á samanburðarrannsóknir milli smáríkja í ólíkum heimshlutum og þannig stækka rannsóknasvið stofnunarinnar og auka skilning á smáríkjum í alþjóðakerfinu.

self.image.title

Fjölmiðlar, lýðræði og smáríki

Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í lýðræðisríkjum. Þeir miðla upplýsingum til almennings og eru iðulega nefndir fjórða valdið þar sem þeir fylgjast gjarnan með störfum valdhafa í samfélaginu. Með tilkomu samfélagsmiðla eins og Facebook, Twitter, YouTube og Instagram, hefur fjölmiðlaumhverfið gjörbreyst. Fólk nálgast nú í sífellt meiri mæli upplýsingar beint í gegnum þessa miðla og stjórnmálamenn og aðrir valdhafar nota oft samfélagsmiðla til þess að koma skilaboðum til almennings, án þess að hefðbundnu fjölmiðlarnir komi þar við sögu.

Staða smáríkja í þessu nýja fjölmiðlaumhverfi þarfnast nánari skoðunar. Rannsóknasetur um smáríki vinnur að rannsóknum á þessu mikilvæga sviði í samstarfi við innlenda og erlenda fræðimenn. Meðal þess sem einblínt er á er að tilkoma samfélagsmiðla hefur veikt tekjustofna hefðbundinna fjölmiðla en staða þeirra er enn veikari í smærri ríkjum en þeim stærri sökum færri íbúa og þar af leiðandi smærri auglýsingamarkaðar. Er staða samfélagsmiðla enn sterkari í smáríkjum en þeim stærri? Og ef svo er, hvaða áhrif hefur það á miðlun upplýsinga til almennings?

Í smáríkjum eru styttri boðleiðir milli valdhafa og almennings. Hvaða áhrif hefur þetta á lýðræði í þessum ríkjum? Færa má rök fyrir því að það sé eðlismunur á hlutverki fjölmiðla í ríkjum þar sem fjarlægðir eru styttri og auðveldara er að ræða beint við fólk, hvort sem er í eigin persónu eða í gegnum samfélagsmiðla.

self.image.title

Sjálfbær þróun, velsældarhagkerfið og smáríki

Hvernig munu störf framtíðarinnar líta út? Hvernig mun efnahagslífið þróast? Hvaða áhrif mun fjórða iðnbyltingin hafa? Erlendir og innlendir fræðimenn sem tengjast Rannsóknasetri um smáríki vinna nú að því að rannsaka efnahagsmál smáríkja. Í rannsóknarverkefnum er meðal annars leitast við að skoða að hvaða leyti smáríki eru sveigjanlegri og betur í stakk búin til að takast á við breytingar framtíðarinnar en stærri samfélög. Munu smáríki vera leiðandi afl á þessu sviði?

Hagkerfi smáríkja eru oft einsleit og sökum smæðar eru þau gjarnan mjög berskjölduð þegar skjótar breytingar eiga sér stað í stærri hagkerfum heimsins. Mikilvægur þáttur í að efla sjálfbærni smáríkja er að auka viðnámsþrótt þeirra og gera þau minna háð utanaðkomandi efnahagsþáttum, þannig að þau verði síður viðkvæm fyrir áföllum framtíðarinnar.

Nú á sér stað þróun í átt til aukinnar sjálfbærni og eru stjórnvöld og samfélög í sífellt ríkari mæli að leggja áherslu á fjölbreytta mælikvarða til að meta velsæld. Oft er talað um velsældarhagkerfið í þessu samhengi. Rannsóknasetur um smáríki er aðili að stóru rannsóknaneti sem skoðar sjálfbærni í eyjasamfélögum og stefnt er að því að útvíkka rannsóknir á þessu sviði til að kortleggja betur möguleika Íslands og annarra smáríkja í breyttum heimi þegar kemur að velsæld.

self.image.title

Áfallastjórnun í smáríkjum

Áföll hafa á vissan hátt orðið landlægur faraldur í nútímaþjóðfélagi. Ekki aðeins fer þeim sífjölgandi heldur verða þau æ flóknari í eðli sínu m.a. vegna langtímaþróunar í alþjóðavæðingu, aukinnar upplýsingamiðlunar og félagslegs óróleika. Áföll á tveimur fyrstu áratugum 21. aldar, eins og efnahagshrunið 2008 og COVID-19 2020, eru dæmi um áföll sem hafa haft í för með sér – og hafa enn – gífurlegar áskoranir fyrir stjórnsýslu ríkja. Í rannsóknum setursins verður sérstaklega litið til þess hvaða áhrif stærð ríkja hefur á viðbrögð þeirra við áföllum og getu þeirra til að bregðast við þeim. Eru viðbrögð smáríkja við áföllum ólík viðbrögðum stærri ríkja? Á undanförnum árum hafa rannsóknir í áfallastjórnum vaxið gríðarlega og hefur áherslan fyrst og fremst verið á stærri ríkin. Undanfarið hefur þó verið bent á að staða og einkenni smáríkja hafa áhrif á getu þeirra til að búa sig undir og bregðast við áföllum.

Oft er litið til einkenna smáríkja, eins og fámenni í stjórnsýslu, skort á sérfræðiþekkingu og það hvað þau eru háð alþjóðasamstarfi og alþjóðamörkuðum, til þess að skýra hvernig þau bregðast við áföllum og hvernig áfallastjórnun fer fram innan ríkjanna. Í smáríkjum er mannauður takmarkaður og oft því ekki hægt að treysta á sérfræðinga og sérfræðiþekkingu þegar kemur að viðbrögðum. Þetta gerir það að verkum að áfallastjórnun innan smáríkja einkennist oft af skorti á fagmennsku (e. layman characteristics) ásamt því að vera meira í því að bregðast við (e. reactive) fremur en að sýna frumkvæði (e. proactive) í greiningu, í vinnu að áhættuminnkandi aðgerðum og í viðbrögðum vegna áfalla.

Rannsóknasetur um smáríki hefur undanfarið tekið þátt í alþjóðlegum rannsóknaverkefnum tengdum áfallastjórnun í smáríkjum í samstarfi við innlenda og erlenda sérfræðinga. Á næstu misserum mun stofnunin efla þetta áherslusvið þar sem skýr vöntun er á frekari rannsóknum innan sviðsins.

self.image.title