Rannsóknasetur um norðurslóðir

Rannsóknasetur um norðurslóðir var stofnað árið 2013 og starfar undir Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands. Sérstaða setursins felst í þverfræðilegri nálgun rannsóknasetursins þar sem áhersla er lögð á að leiða saman fræðimenn af öllum sviðum og deildum háskólans sem leggja stund á norðurslóðarannsóknir.  Frá stofnun setursins hefur verið sérstök áhersla á vestnorræna svæðið, Ísland, Grænland og Færeyjar sem og á vaxandi áhuga stórvelda á borð við Kína á norðurskautssvæðið og hvaða áhrif sá áhugi hefur haft á þessi smæstu lönd. Öryggismál hafa einnig verið ofarlega á baugi í verkefnum setursins og er þá átt við öryggismál í víðum skilningi þar sem meðal annars er komið inn á umhverfismál, alþjóðastjórnmál, varnarmál og samfélagsmál. 

Rannsóknasetur um norðurslóðir styður við norðurslóðarannsóknir sem vísindafólk Háskóla Íslands stendur að og tekur þátt í og miðlar rannsóknaniðurstöðum. Auk þess stendur setrið fyrir fræðslu, fyrirlestrum og viðburðum, oft í samstarfi við aðrar innlendar og erlendar stofnanir. Setrið sinnir einnig margvíslegum verkefnum sem tengjast þátttöku Háskóla Íslands í Háskóla norðurslóða (UArctic) og formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu. Setrið nálgast viðfangsefnin á eins þverfræðilegan hátt og unnt er og leggur áherslu á eftirfarandi rannsóknaáherslur. Rannsóknasetur um norðurslóðir vinnur náið með Rannsóknasetri um smáríki og Höfða friðarsetri, sem bæði heyra undir Alþjóðamálastofnun, að fjölbreyttum verkefnum á sviði rannsókna og menntunar.  

self.image.title

Loftslagsbreytingar, umhverfismál og og sjálfbærni

Hlýnun jarðar og loftslagsbreytingar hafa á fáum stöðum í heiminum jafn sýnileg áhrif og á norðurslóðum þar sem hlýnunin hefur verið meira en tvöföld miðað við heimsvísu á undanförnum áratugum. Áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum eru mjög sýnileg með bráðnun íss og öðrum breytingum í umhverfinu, en það dregur ekki úr mikilvægi þess að nálgast loftslagsbreytingar þverfræðilega og í hnattrænu samhengi. Meðal áhersluatriða Rannsóknaseturs um norðurslóðir er að efla samstarf við hagfræðinga til að skoða efnahagsleg áhrif loftslagsbreytinga. 

Loftslagsbreytingar hafa í för með sér margs konar áskoranir varðandi umhverfið og nýtingu auðlinda. Áskoranir sem þessar eru hvatning fyrir vísindasamfélagið, atvinnulífið og stjórnvöld til að hugsa í lausnum og hvetja til nýsköpunar með það að leiðarljósi að finna leiðir til sjálfbærrar nýtingar auðlinda, bæði á landi og í hafi. Hér er mikilvægt að horfa til nýsköpunar en þar hefur Höfði friðarsetur í samstarfi við fjölmarga aðila staðið að Snjallræði.

Þau svæði sem tilheyra norðurslóðum hafa ákveðna sérstöðu. Oft eru þau strjálbýl, samfélögin smá og nánd mikil. Kynslóðirnar sem alast upp í þessum samfélögum læra af þeim sem á undan koma og því ber að varast að vanmenta hefðbundna þekkingu þeirra sem búa á svæðinu og þekkja bæði menningu þess, sögu og náttúru. Norðurslóðir eru því tilvalið svæði til að efla samstarf vísinda og hefðbundinnar þekkingar sem er til staðar í samfélögunum.

self.image.title

Smáríki á norðurslóðum

Fimm af átta aðildarríkjum Norðurskautsráðsins teljast vera smáríki. Að auki eru Grænland og Færeyjar hluti af norðurslóðum og mynda saman Vestnorræna ráðið ásamt Íslandi.  

Rannsóknasetur um norðurslóðir starfar náið með Rannsóknasetri um smáríki sem einnig starfar undir Alþjóðamálastofnun og er leiðandi á heimsvísu á sviði smáríkjafræða. Þar er mikil þekking á sérstöðu smáríkja í alþjóðlegu samstarfi, jafnt veikleikum þeirra og styrkleikum. Rannsóknasetur um norðurslóðir leggur sérstaka áherslu á að skoða þær áskoranir sem smærri ríkin á norðurslóðum standa frammi fyrir og þá sérstaklega vestnorrænu löndin og Norðurlöndin. 

Norðurskautssvæðið er sérlega áhugavert svæði til að skoða út frá samskiptum ríkja og geópólitík, bæði þar sem það spannar menningarlega ólík svæði og býr yfir miklum náttúruauðlindum. Enginn samningur nær yfir norðurskautið, sambærilegur við þann sem gerður var fyrir suðurskautið. Það þýðir þó ekki að stjórnleysi ríki, heldur er um net stofnana að ræða sem fara með ólík mál sem snerta svæðið. Stofnanirnar eru ólíkar í eðli sínu, sumar geta tekið bindandi ákvarðanir á meðan aðrar eru fyrst og fremst leiðbeinandi. Rannsóknasetrið hefur lagt áherslu á að skoða þátttöku Íslands í þessum stofnunum og hvernig smáríki geta best gætt hagsmuna sinna innan þeirra.

self.image.title

Öryggismál á norðurslóðum

Öryggismál á norðurslóðum hafa alltaf verið meðal helstu áhersluefna setursins og er þá átt við öryggismál í víðum skilningi. Öryggismálin skarast líka við öll hin þemun sem setrið hefur sett í forgrunn svo sem smáríkjaþemað, en þar hefur skjólskenningin meðal annars verið notuð þegar fjallað er um öryggismál. Þá er ekki hægt að skoða öryggi smáríkja á norðurslóðum öðruvísi en að horfa einnig til stærri ríkjanna sem eru á svæðinu eða hafa sýnt því áhuga.

Rannsóknasetur um norðurslóðir leggur áherslu á að skoða öryggismál út frá umhverfisáhrifum, þá bæði áhrif sem önnur öryggismál svo sem hernaðaruppbygging á norðurslóðum hefur á umhverfið og hvernig náttúruhamfarir geta haft áhrif á öryggismál. Þá getur viðkvæmt ástand stigmagnast ef miklar breytingar verða í umhverfinu.

Annað áherslumál er pólitískt- og hernaðarlegt öryggi, en fyrir lítið herlaust ríki skiptir sköpum að geta tekið ákvarðanir byggðar á eigin rannsóknum. Þá eru efnahagsmálin ofarlega á baugi í þessu samhengi líka, enda svæðið ríkt af auðlindum og möguleiki á að nýjar siglingaleiðir opnist áður en langt um líður.

Fjölþáttaógnir eru einnig á dagskrá setursins, en mikilvægt er að skoða áhrif þeirra í samhengi við norðurslóðir þar sem samfélög eru oft minni og afskekktari en víða annarsstaðar, en að sama skapi eru sum samfélög, líkt og Ísland vel tæknivædd og nettengd. 

Loks má nefna áherslu á samfélagslegt öryggi, enda samfélögin á norðurslóðum oft lítil og líkleg til að verða fyrir miklum áhrifum ef ógn steðjar að.

self.image.title

Mannréttindi og samfélagsleg þróun

Rannsóknasetur um norðurslóðir starfar náið með Höfða friðarsetri Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands sem einnig er starfrækt undir Alþjóðamálastofnun. Friðarsetrið hefur á undanförnum árum byggt upp öflugt tengslanet og mikla þekkingu á sviði mannréttinda.

Rannsóknasetrið hefur tekið þátt í verkefnum sem snúa að jafnréttismálum á norðurslóðum, þá helst jafnrétti kynjanna, en hefur nú áhuga á að víkka sviðið og skoða fleiri svið mannréttinda sem skipta samfélögin á norðurslóðum og þróun þeirra miklu máli, svo sem réttindi barna og hinsegin fólks.

Með vaxandi hlýnun má búast við að viss svæði í suðri geti orðið óbyggileg og að  flóttafólk leiti hælis á norðlægari slóðum. Þar af leiðandi er mikilvægt að skoða hvernig þessi smáu samfélög eru í stakk búin til að taka á móti flóttafólki og að efla menningarlæsi.