Teymin sem tóku þátt í Snjallræði árið 2021 spanna afar fjölbreytt svið.
Allt frá þjónustu við einstaklinga sem glíma við fíknisjúkdóma, smáforriti sem sér um verkaskiptingu og hugræna byrði heimilisins til kolefnislausnar sem er beintengd fjárhaldsbókhaldi fyrirtækja.
Bambahús - Umhverfisvæn gróðurhús fyrir sjálfbært samfélag
Verkefnið byggir á þeirri hugmyndafræði að endurnýta rusl og með nýrri tækni að smíða úr því gróðurhús. Bambahús eru gróðurhús byggð úr 1000 lítra IBC tönkum sem kallast bambar sem þau ætla að selja til einstaklinga og opinberra stofnana eins og leik- og grunnskóla. Í kjölfarið myndast hringsrásarkerfi þar sem þau endurnýta vökvaumbúðir sem annars væru fluttar úr landi og urðaðar og teljast þar með til rusls, til að búa til gróðurhús þar sem börn geta lært sjálfbærni og ræktun.
Þau vilja spara fyrirtækjum kostnað við að farga, gefa samfélaginu tækifæri til að vera sjálfbær í matarframleiðslu og á sama tíma draga úr losun og kolefnisjafna.
Electra er smáforrit sem hefur það markmið að bæta þjónustu við einstaklinga sem að glíma við fíknisjúkdóm á nýstárlegan hátt.
Vegna mikillar aðsóknar eftir innlögn á sjúkrahúsinu Vogi var lengsti biðtíminn yfir 300 dagar árið 2019. Á meðan á þessari bið stendur fá skjólstæðingar litla sem enga aðstoð.
Electra er handhægt smáforrit sem er alltaf til taks óháð stund og stað. Electra hvetur, leiðbeinir og styður við einstaklinga fyrir og eftir meðferð og eykur líkur á langtíma bata.
COMAS - Community Management Systems - is a global software service provider specialising in co-creating solutions in resource circulation for sustainable communities.
The Homegrow project by COMAS is a software platform that teaches people how to grow food in everyday “home” spaces and connects people to create, share and market homegrown food products.
We work side-by-side with users and communities to understand their needs and develop highly intuitive solutions. Our homegrow software platform guides people to co-create providing the framework and tools. Open design/open data, some companies use people's data to profit - we believe in delivering affordable tech solutions that individuals and micro/small businesses can benefit from the most.
Greenfo - Markmið Greenfo er að verða leiðarvísir fyrirtækja í sjálfbærni.
Greenfo er að þróa hugbúnað sem er heildarlausn fyrirtækja í loftslagsmálum. Fyrirtæki munu geta kortlagt loftslags- og umhverfisahrif rekstursins, sett sér aðgerðaráætlun í loftslagsmálum, fengið tól og leiðarvísi til þess að taka ákvarðanir út frá hagkvæmni og ávinningi í þágu umhverfisins með markvissum aðgerðum.
Hugbúnaðurinn byggir á sjálfvirkri gagnasöfnun innan fyrirtækja til að reikna kolefnisspor allrar virðiskeðjunnar, einfaldar og vaktar markmiðasetningu um samdrátt, spáir fyrir um losun og veitir samanburð við önnur fyrirtæki.
HEIMA er smáforrit sem sér um skipulag og hugræna byrði heimilisins á skemmtilegan og jafnréttiseflandi máta.
Konur og stúlkur sinna 75% heimilisverka á heimsvísu sem takmarkar tækifæri og möguleika þeirra í lífinu. Þess vegna byrjar jafnrétti heima, með jafnri verkaskiptingu og ábyrgð allrar fjölskyldunnar.
HEIMA smáforritið skipuleggur og skiptir heimilisverkunum jafnt á milli fjölskyldumeðlima. Það gefur stig fyrir hvert unnið verk og sendir snjallar áminningar til að hvetja fólk áfram.
HEIMA teymið vinnur að því að koma smáforritinu sem fyrst í hendur fjölskyldna.
WULLproject er verkefni sem nýtir vannýtta íslenska ull sem annars skilar engu virði til sauðfjárbænda. Ullin er í lélegri gæðum og í mörgum litum sem hentar illa í framleiðslu á garni. Aftur á móti er ull eitt umhverfisvænasta efni sem fyrir finnst og því mikilvægt að nýta all þá ull sem landið gefur.
Með því að uppvinna gömul og gölluð húsgögn og bæta þau með nýstárlegum ullartextíl mun WULL project skapa einstakar vörur sem eru góðar fyrir heimilið og umhverfið. Áherslan liggur í vistvænni framleiðslu og umhverfisvænum vörum sem skaða engin dýr í ferlinu.
Tæknivinur er lausn sem miðar að því að leiða saman eldri borgara, sem þarfnast ráðgjafar í tæknilegum málum og yngra fólk, sem býr að þekkingu og kunnáttu á því sviði.
Tæknivinur einbeitir sér að verkefnum sem eru veigaminni en svo kalla þurfi til sérmenntað fagfólk. Ungt fólk sem lifir og hrærist í snjallvæddu umhverfi er vannýtt auðlind að mat Tæknivinar og býður það einstaklingum úr þeim hópi að skrá sig sem verktaka, „tæknivin“.
Eldri borgarar eiga þess kost að fá tæknilega aðstoð, ráðgjöf og fræðslu sem getur reynst þörf á í nútíma tækniumhverfi. Þjónustan er ýmist veitt í formi símtals eða heimsóknar. Tæknivinur getur með þessu móti einnig nýst fyrirtækjum og stofnunum sem miðla tæknilegum lausnum eða nýta þær.
SoGreen ætlar að leysa tvö brýnustu vandamál heims með einni frumlegri lausn. Þær ætla að selja fyrirtækjum vottaðar kolefniseiningar með því að mennta stúlkur í fátækustu ríkjum heims.
Hröð fólksfjölgun er mikil hindrun ef okkur á að takast að ná markmiðum Parísarsáttmálans. Og - svo skemmtilega vill til að fátt hægir jafnmikið á fólksfjölgun og það að tryggja stúlkum menntun.
Með sölu kolefniseininga mun SoGreen tryggja hjálparsamtökum nýtt og öflugt tekjuflæði til að tryggja stúlkum í fátækustu ríkjum heims menntun.