19. Jan. 2024

Annáll Alþjóðamálastofnunar 2023

STARF ALÞJÓÐAMÁLASTOFNUNAR HÁSKÓLA ÍSLANDS ÁRIÐ 2023

Í þessari samantekt er farið yfir þau fjölmörgu verkefni á sviði alþjóða- og utanríkismála sem Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands hefur unnið árið 2023, en innan vébanda stofnunarinnar starfa Rannsóknasetur um smáríki, Rannsóknasetur um norðurslóðir og Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands.

Hér er hægt að opna PDF skjal með Annál Alþjóðamálastofnunar 2023: Annáll AMS 2023

Ár frá innrás

Þann 24. febrúar 2023 var haldið opið málþing á vegum Úkraínuverkefnis Háskóla Íslands í samstarfi við Alþjóðamálastofnun en dagsetningin markaði ár frá innrás Rússa í Úkraínu. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra flutti opnunarerindi. Þá kom úkraínski fiðluleikarinn Kateryna Mysechko fram og Volodymyr Kulyk við Vísindaakademíu Úkraínu flutti erindi um úkraínska þjóðernisvitund. Þau Berglind Ásgeirsdóttir, fyrrverandi sendiherra, Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði og Dagný Hulda Erlendsdóttir, fréttamaður á RÚV tóku þátt í pallborðsumræðum. Fundarstjórn var í höndum Jóns Ólafssonar, prófessors í menningarfræði.

Alþjóðasamskipti og þjóðaröryggi

Þjóðaröryggisráð í samstarfi við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands stóð fyrir ráðstefnunni Alþjóðasamskipti og þjóðaröryggi þann 22. mars í Norðurljósasal Hörpu.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, fluttu erindi á ráðstefnunni. Þær lögðu áherslu á mikilvægi alþjóðasamvinnu í því að tryggja þjóðaröryggi Íslands og hvernig ríki geta beitt sér á alþjóðasviðinu í krafti smæðar sinnar.

Í fyrri málstofu dagsins var fjallað um þær áskoranir sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir og getu alþjóðastofnana til að takast á við ógnir samtímans. Þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og forstjóri lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE, Hermann Örn Ingólfsson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu, Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands, Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra og Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands tóku þátt í pallborðsumræðum. Umræðum stjórnaði Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands.

Í síðari málstofunni, Alþjóðasamstarf og víðtækir öryggishagsmunir Íslands, var rætt um hvernig Ísland getur nýtt alþjóðasamstarf til að tryggja þjóðaröryggi út frá ólíkum málefnasviðum. Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, Guðmundur Arnar Sigmundsson, forstöðumaður CERT-IS, Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs og Bjarni Már Magnússon, prófessor í lögfræði við Háskólann á Bifröst, tóku þátt í pallborðsumræðum. Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, stýrði umræðum og flutti inngangserindi.

Alþjóðasamvinna á krossgötum: Hvert stefnir Ísland?

Árleg ráðstefna Alþjóðamálastofnunar, utanríkisráðuneytisins og Norræna hússins um alþjóða - og utanríkismál Íslands var haldin miðvikudaginn 19. apríl frá kl 10:00 – 17:00 í Auðarsal í Veröld - húsi Vigdísar. Ráðstefnan var haldin í samstarfi við Félag stjórnmálafræðinga og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála eins og síðastliðin ár. Boðið var upp á þétta og áhugaverða dagskrá um alþjóðamál og helstu áskoranir og tækifæri Íslands í utanríkismálum.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, opnaði ráðstefnuna og gerði það umræðuefni að valkostir á krossgötum geti stundum verið afgerandi og augljóst í hugum flestra hvaða leið skuli velja en stundum sé leiðin óljós. Hún benti á að þegar þjóðin er stödd á krossgötum sé mikilvægt að leggja áherslu á alþjóðalög og alþjóðasamvinnu og spyrja hvernig við getum verið verðugir bandamenn þeirra ríkja sem standa vörð um öryggi og frið í okkar heimshluta. Hvaða leið liggur í átt til lýðræðis og jafnréttis í heiminum? Hvaða leið á krossgötunum vísar í átt til sterkara réttarríkis og viðskiptafrelsis? Hvaða leið liggur til borgaralegra mannréttinda, frelsis og sköpunar? Það er leiðin sem samræmist best hagsmunum Íslands.

Dagskrá ráðstefnunnar var vegleg og byggðist upp á fimm málstofum. Í fyrstu málstofu ráðstefnunnar var rætt um norræna samvinnu í breyttu öryggisumhverfi, þátttakendur í pallborði voru Jakob Hallgren, forstöðumaður sænsku alþjóðamálstofnunarinnar (UI), Kristin Haugevik, sérfræðingur hjá norsku alþjóðamálastofnuninni (NUPI), Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands (IIA), Samu Paukkunen, aðstoðarforstöðumaður finnsku alþjóðamálastofnunarinnar (FIIA), og Ulrik Pram Gad, sérfræðingur hjá dönsku alþjóðamálastofnuninni (DIIS). Í næstu málstofu var sjónum beint að öryggi, umhverfi og samstarfi á norðurslóðum á stríðstímum. Silja Bára Ómarsdóttir hélt erindi en í kjölfarið tóku við pallborðs umræður með Ara Trausta Guðmundssyni, jarðvísindamanni og fyrrverandi alþingismanni, Áslaugu Ásgeirsdóttur, prófessor í stjórnmálafræði við Bates College í Maine og Fulbright Arctic-NSF fræðimanni við Háskóla Íslands 2022-23, Kristínu Lindu Árnadóttur, aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar og fyrrum formanni sérfræðihóps Norðurskautsráðsins um sót og metan og Þórunni Wolfram, framkvæmdastjóra Loftslagsráðs.

Eftir hádegi tóku við umræður um stöðu flóttafólks í heiminum og leitað var svara við því hvort alþjóðakerfið hefði brugðist flóttafólki og ef svo er hvernig væri hægt að bæta það kerfi. Hugo Brady, sérfræðingur hjá International Center for Migration Policy Development (ICMPD) hélt erindi en þátttakendur í pallborðsumræðum voru Claudia Ashanie Wilson, lögmaður og eigandi Claudia & Partners Legal Services, Eva Bjarnadóttir, sérfræðingur í málefnum flóttafólks, Jasmina Vajzovic Crnac, stjórnmálafræðingur og Nína Helgadóttir, teymisstjóri á hjálpar- og mannúðarsviði Rauða kross Íslands.

Eftir umræðu um vernd flóttafólks tók við umræða um mannréttindi, lýðræði og hlutverk Evrópuráðsins. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, yfirmaður samvinnuverkefna hjá Evrópuráðinu hélt erindi en í pallborðsumræðum sem fylgdu í kjölfarið tóku þátt Björg Thorarensen, hæstaréttardómari, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins og Þórlindur Kjartansson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra.

Í síðustu málstofu dagsins undir yfirskriftinni Hvert stefnum við? ræddu fulltrúar stjórnmálaflokkanna um utanríkisstefnu Íslands í nútíð og framtíð. Þátttakendur þetta árið voru: Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata, Jakob Frímann Magnússon, þingmaður Flokks fólksins, Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður Framsóknarflokksins, Jón Steindór Valdimarsson, varaþingmaður Viðreisnar, Logi Einarsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði og stjórnarformaður Alþjóðamálastofnunar, lokaði ráðstefnunni en eftir það var boðið til móttöku þar sem Villi Neto sló á létta strengi.

Ráðstefnan var vel sótt eins og fyrri ár, en hún hefur markað sér sess sem einn helsti vettvangur hér á landi til að ræða um utanríkismál á opinskáan hátt með aðkomu fræðimanna, sérfræðinga og stjórnmálamanna. Þetta árið var boðið upp á þá nýjung að fá túlkun á ensku en því var afskaplega vel tekið og margir sem nýttu sér þann kost.

ACONA – The Arms Control Negotiation Academy

Einn liður í því að svara þörfum alþjóðasamfélagsins í afvopnunarmálum er að þjálfa næstu kynslóð sérfræðinga á þessu sviði en það er einmitt hlutverk The Arms Control Negotiation Academy, ACONA, alþjóðlegs 12 mánaða námskeiðs í samningatækni og afvopnunarmálum. Höfði friðarsetur heldur utan um námskeiðið í samstarfi við Woodrow Wilson Center, Peace Research Institute Frankfurt og the Project on Managing the Atom við Belfer Center við Harvard Kennedy School, og er það nú haldið í fjórða sinn.

ACONA byggir á þremur vikulöngum námskeiðum fyrir upprennandi leiðtoga á sviði afvopnunarmála og alþjóðasamninga. Á einu ári öðlast þátttakendur í ACONA færni í að undirbúa sig fyrir og meta flóknar samningaviðræður, vinna saman að alþjóðlegum rannsóknarverkefnum og funda með reynslumiklum leiðtogum í alþjóðamálum.

Námskeiðið hefur vakið mikla athygli og færri hafa komist að en vildu. Þátttakendur í námskeiðinu hafa fjölbreyttan sérfræði- og akademískan bakgrunn og koma víða að, en sem dæmi má nefna að í ár eru þátttakendur frá Bandaríkjunum, Svíþjóð, Kirgistan, Suður-Kóreu, Pakistan, Suður-Afríku, Rússlandi og Þýskalandi í hópnum, svo að eitthvað sé nefnt. Hingað til hafa fjórar íslenskar konur tekið þátt ínámskeiðinu en þátttaka þeirra er liður í því að auka þekkingu á þessu sviði á Íslandi.

ACONA Conference Reykjavík: Negotiating the Future of European Security

ACONA Conference Reykjavík, alþjóðleg ráðstefna um afvopnunarmál og samningatækni, var haldin 12. maí í Grósku. Ráðstefnan var haldin í kjölfar síðasta námskeiðs þriðja árgangs ACONA í Reykjavík. Ráðstefnan var opin almenningi en meðal fyrirlesara voru meðal annars, Guðni Th. Jóhannnesson, forseti Íslands, John Wolfsthal, sérfræðingur hjá Gobal Zero, Steve Miller, stjórnarformaður Pugwash og Mariana Budjeryn, fræðimaður við verkefnið Managing the Atom við Belfer Center.

Lýðræði fyrir framtíðina

Málþingið Lýðræði fyrir framtíðina var haldið í Veröld – húsi Vigdísar mánudaginn 15. maí.

Á málþinginu var lögð áhersla á umræðu um framtíð lýðræðis í Evrópu og hvernig efla megi lýðræðislega menningu og traust á lýðræðisstofnunum í álfunni. Málþingið var haldið í samvinnu við Alþingi og Evrópuráðsþingið í tengslum við leiðtogafund Evrópuráðsins sem haldinn var í Reykjavík dagana 16.-17. maí 2023. Fundurinn var vel sóttur af félögum ungliðahreyfinga á Íslandi. Á málþinginu var lögð áhersla á umræðu um framtíð lýðræðis í Evrópu og hvernig efla megi lýðræðislega menningu og traust á lýðræðisstofnunum í álfunni. Meðal framsögufólks var Tiny Kox, forseti Evrópuráðsþingsins, Alexander Shlyk, sérstakur ráðgjafi Sviatlana Tsikhanovskaya, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Belarús, Mariia Mezentseva, formaður úkraínsku landsdeildarinnar á Evrópuráðsþinginu, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, Jón Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna ‘78 og Isabel Alejandra Diaz, ungmennafulltrúi Sameinuðu þjóðanna á sviði mennta, vísinda og menningar.

lýðræði fyrir framtíðina_3

The Importance of Research Cooperation in the Arctic - Across Borders and Disciplines

Rannsóknasetur um norðurslóðir stóð fyrir opnu málþingi um mikilvægi rannsóknasamstarfs á norðurslóðum 30. maí þar sem greint var frá því að Gunnar Stefánsson, prófessor í verkfræði við Háskóla Íslands, hefði tekið við stöðu aðstoðarrektors vísinda hjá Háskóla norðurslóða (UArctic). Á málþinginu var lögð áhersla á þær margvíslegu áskoranir sem krefjast samvinnu á sviði rannsókna og kennslu. Eftirtaldir aðilar fluttu erindi á málþinginu: Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti og formaður Hringborðs norðurslóða, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Lars Kullerud, forseti Háskóla norðurslóða (UArctic) og Aud Lise Norheim, sendiherra Noregs á Íslandi. Pia Hansson, forstöðumaður Rannsóknaseturs um norðurslóðir sá um fundarstjórn.

The Changing Arctic: Will the Arctic see greater military engagement or continued cooperation? Canadian and Icelandic perspectives

Þann 7. júní var haldið opið málþing um áskoranir á norðurslóðum og mikilvægi samvinnu á svæðinu í Þjóðminjasafninu í samstarfi við utanríkisráðuneytið og Varðberg.

Um var að ræða heilsdags málþing. Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar og Davíð Stefánsson, framkvæmdastjóri Varðbergs buðu gesti velkomna en eftir það hélt Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir opnunarerindi málþingsins.

Lykilerindið A transformed security landscape in the Arctic and the North Atlantic. How can allies and partners strengthen their collective security in the region? hélt James Fergusson, aðstoðarframkvæmdastjóri Centre for Defence and Security Studies við Háskólann í Manitoba en eftir erindið fóru fram pallborðsumræður með Silju Báru Ómarsdóttur, prófessor í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands, Jónasi Allanssyni, skrifstofustjóra Varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og Whitney Lackenbauer, framkvæmdastjóra North American and Artic Defence and Security Network.

Önnur málstofa dagsins fjallaði um nýjar áskoranir þegar kemur að stjórnarháttum á norðurslóðum. Marc Lanteigne, dósent í stjórnmálafræði við Háskólann í Tromsø hélt lykilerindið en eftir það tóku við pallborðsumræður. Þátttakendur voru Guðbjörg Ríkey Th. Hauksdóttir, doktorsnemi við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, Davíð Stefánsson, framkvæmdastjóri Varðbergs og Andrea Charron, framkvæmdastjóri Centre for Defence and Security Studies við Háskólann í Manitoba.

Í þriðju og síðustu málstofu dagsins var lögð áhersla á að skoða samfélagslegar áskoranir á norðurslóðum, svo sem kynjajafnrétti, samfélagslegt öryggi og umhverfislega sjálfbærni. Lykilerindi flutti Bridget Larocque, NAADSN Co-Lead, Chair of Northern Advisory Board. Eftir erindi Larocque fóru fram umræður í pallborði. Þátttakendur voru Bjarni Már Magnússon, prófessor í lögfræði við Háskólann á Bifröst, Sóley Kaldal, aðalsamningamaður í fiskveiðisamningum hjá matvælaráðuneytinu og Andrea Charron, framkvæmdastjóri, Centre for Defence and Security Studies. Lokaerindi flutti Whitney Lackenbauer, framkvæmdastjóri NAADSN en Hlynur Guðjónsson, sendiherra Íslands í Kanada lokaði ráðstefnunni.

Falsfréttir og stjórnmál eftirsannleikans

Þann 12. september hélt Alþjóðamálastofnun opinn fund í samstarfi við bandaríska sendiráðið og Fjölmiðlanefnd þar sem umfjöllunarefnið var falsfréttir og stjórnmál eftirsannleikans. Á fundinum fjallaði prófessor Ian MacMullen frá Háskólanum í Pennsylvaníu um falsfréttir og stöðu stjórnmála í lýðræðisríkjum í dag og hvað sé hægt að gera til að vinna gegn hinum ólíku birtingarmyndum stjórnmála eftirsannleikans (e. post-truth politics). Eftir erindið fóru fram áhugaverðar pallborðsumræður. Þátttakendur voru Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, Hulda Þórisdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og Ingólfur Bjarni Sigfússon, ritstjóri Kveiks. Fundarstjóri var Maximilian Conrad, prófessor ið Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og aðalrannsakandi RECLAIM verkefnisins.

The Imagine Forum: Nordic Solidarity for Peace

Árleg friðarráðstefna Höfða friðarseturs í samstarfi við utanríkisráðuneytið var með öðrum hætti og veglegri en vanalega þetta árið þar sem ráðstefnan var að þessu sinni haldin í samstarfi við formennsku Íslands í norrænu ráðherranefndinni.

Yfirskrift formennskuárs Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2023 var Norðurlönd – afl til friðar. Í formennskutíð Íslands var lögð áhersla á að varpa ljósi á mikilvægi friðar sem undirstöðu mannréttinda, velferðar, kvenfrelsis og umhverfis- og loftslagsverndar. Leitað var til Höfða friðarseturs og Alþjóðamálastofnunar um að halda utan um friðarráðstefnu á Íslandi með það að markmiði að leiða saman öflugan hóp skapandi hugsuða til að taka þátt í samtali milli kynslóða um hvernig við getum eflt norrænt samstarf í þágu friðar.

Stofnunin vann að umsókn um styrk til norrænu ráðherranefndarinnar í samstarfi við utanríkisráðuneytið, forsætisráðuneytið og samstarfsráðherra Norðurlandanna á Íslandi til að fjármagna ráðstefnuna. Stofnunin hélt einnig utan um alla hugmyndavinnu og utanumhald með ráðstefnunni í góðu samstarfi við ráðuneytin. Til að virkja aðrar friðarstofnanir á Norðurlöndunum til samstarfs skipulagði Höfði friðarsetur einnig tvo undirbúningsfundi með helstu friðarstofnunum Norðurlandanna í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi. Fundirnir nýttust vel í hugmyndavinnu fyrir ráðstefnuna auk þess sem að þeir styrktu samstarfið milli stofnananna sem tóku þátt. Þær rannsóknastofnanir sem tóku þátt í fundunum fögnuðu framtakinu og tóku þátt í því að skipuleggja málstofur á ráðstefnunni. Stofnanirnar sem tóku þátt voru: SIPRI, PRIO, TAPRI, DIIS, NUPI, Åland Island Peace Research Institute og CMI - Martti Ahtisaari Peace Foundation.

Ráðstefnan var haldin í Norðurljósasal Hörpu og stóð í tvo daga, 10. - 11. október. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda opnuðu ráðstefnuna en aðalræðuna flutti Amina J. Mohammed, varaframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, hélt opnunarerindi fyrir pallborðsumræður um alþjóðlegar áskoranir og frið á 21. öldinni og sagði meðal annars að slíkum áskorunum færi ekki aðeins fjölgandi heldur væri alvarleiki þeirra orðinn meiri og vísaði meðal annars til árásar Hamas á Ísrael og innrásarstríðs Rússlands í Úkraínu. Anne Beathe Tvinnereim, samstarfsráðherra Norðurlanda í Noregi og Guðmundur Ingi Guðbrandsson héldu svo erindi um hvernig Norðurlöndin geta beitt sér fyrir friði heima og að heiman. Í kjölfarið fóru fram pallborðsumræður með sérfræðingum frá friðarrannsóknastofnunum á Norðurlöndunum.

Á ráðstefnunni var einnig málstofa um hlutverk borga í friðarumleitunum og friðaruppbyggingu. Andriy Sadovyi, borgarstjóri Lviv og Juhana Vartianien, borgarstjóri Helsinki tóku þátt í umræðum ásamt Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra.

Sérstök áhersla var lögð á stöðuna í Afghanistan og réttindi kvenna á ráðstefnunni og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrverandi utanríkisráðherra, stjórnaði áhugaverðu samtali við Mahbouba Seraj, fjölmiðlakonu og baráttukonu fyrir kvenréttindum og Pashtana Durrani, mannréttindafrömuð og framkvæmdastjóra LEARN Afghan. Á ráðstefnunni var einnig rætt um áhrif loftslagsbreytinga á frið, listir sem hreyfiafl til friðar, nýjar áskoranir við friðarferla og friðaruppbyggingu á breyttum tímum og feminíska friðarfræði á Norðurlöndunum.

Lokaorð ráðstefnunnar voru svo í höndum ungu kynslóðarinnar en Anne Elisabeth Jensdatter, aðstoðarframkvæmdastjóri Norðurlandaráðs æskunnar, flutti áhrifaríka ræðu þar sem hún vakti ráðstefnugesti til umhugsunar um sameiginlegt hlutverk okkar allra við að stuðla að friði í heiminum.

Auk þess að bjóða upp á tíu mismunandi málstofur á ráðstefnunni höfðu ráðstefnu-gestir einnig tækifæri til að skoða listasýninguna Challenging Terrain eftir listamanninn Khaled Barakeh þar sem varpað var ljósi á stöðu flóttafólks í heiminum og fara á tónleikana Woman – Life – Freedom með Samöru Bahrami og Morten Haugshøj í Norræna húsinu.

Arctic Challenges: The Importance of Trans Arctic Collaboration

Miðvikudaginn 18. október stóð Rannsóknasetur um norðurslóðir fyrir opnum fundi í Hátíðarsal Háskóla Íslands sem bar yfirskriftina Arctic Challenges: The Importance of Trans Arctic Collaboration.

Viðburðurinn var opinn almenningi en á honum var kastljósinu beint að helstu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir á norðurslóðum. Fundurinn var haldinn í aðdraganda Hringborðs norðurslóða og var skipulagður í samvinnu við Háskóla norðurslóða, sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi og sendiráð Bandaríkjanna.

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti og stofnandi Hringborðs norðurslóða, flutti opnunarávarp fundarins en meðal fyrirlesara voru Clara Ganslandt, sérstakur erindreki Evrópusambandsins í málefnum norðurslóða, Gunnar Stefánsson, prófessor í verkfræði við Háskóla Íslands og aðstoðarrektor vísinda við Háskóla norðurslóða og Claudia Cheng, doktorsnemi við Háskólann í Tromsø. Þátttakendur í pallborðsumræðum voru: David Auerswald, prófessor í öryggis- fræðum við U.S. National War College, Elana Wilson Rowe, rannsókna prófessor við norsku alþjóðamálastofnunina (NUPI), Rasmus Gjedssø Bertelsen, Fridtjof Nansen prófessor í norðurslóðafræðum við Háskólann á Akureyri, Samu Paukkunen, starfandi forstöðumaður finnsku alþjóðamálastofnunarinnar (FIIA), Sóley Kaldal, aðalsamningamaður fiskveiðisamninga hjá matvælaráðuneytinu, Dag Rune Olsen, rektor við Háskólann í Tromsø, Elín Díanna Gunnarsdóttir, starfandi rektor Háskólans á Akureyri, Gitte Adler Reimer, rektor Háskólans á Grænlandi, Gunnar Stefánsson, prófessor í verkfræði við Háskóla Íslands og aðstoðarrektor vísinda við Háskóla norðurslóða, Kirsi Latola, rannsóknastjóri norðurslóða við Háskólann í Oulu og aðstoðarrektor samstarfsneta hjá Háskóla norðurslóða, Berit Kristoffersen, dósent við norðurslóðamiðstöð sjálfbærrar orku við Háskólann í Tromsø, Darri Eyþórsson, fyrirlesari við Háskóla Íslands, Jennifer Spence, sérfræðingur við Belfer Centre við Harvard Háskóla og Roman Sidortsov, sérfræðingur í réttlátum orkuumskiptum við Háskólann í Sussex.

Þátttaka á Hringborði norðurslóða

Alþjóðamálastofnun stóð fyrir þrem málstofum á Hringborði norðurslóða sem fram fór dagana 19. - 21. október 2023. Í fyrstu málstofunni var sjónum beint að öryggisáskorunum á norðurslóðum, í annarri var áherslan á sérstöðu smáríkja en í þeirri þriðju voru lokakynningar fjögurra hópa sem tóku þátt í ARCADE verkefninu (sjá nánari upplýsingar um ARCADE hér fyrir neðan). Jafnframt var stofnuninni falið að halda utan um þátttöku Háskóla Íslands á Hringborði norðurslóða og kynna þá fjölmörgu fræðimenn við Háskóla Íslands sem tóku þátt í ráðstefnunni.

Sino-Russian Relations in the Arctic

Alþjóðamálastofnun og bandaríska sendiráðið héldu opinn fund þann 2. nóvember þar sem Elizabeth Wishnick, sérfræðingur í öryggismálum Kína og Kyrrahafssvæðisins við Center for Naval Analyses í Bandaríkjunum, ræddi hvort stríð Rússa gegn Úkraínu ýtti undir nánari samvinnu Rússlands og Kína á norðurslóðum og að hvaða leyti hagsmunir Kína og Rússlands kynnu að fara saman þrátt fyrir mismunandi áherslur ríkjanna. Fundarstjóri var Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands.

Vonlaus staða? Átökin fyrir botni Miðjarðarhafs

Þann 8. nóvember hélt Alþjóðamálastofnun opinn fund í Odda í samstarfi við Austurlandafræði við Háskóla Íslands þar sem fjallað var um átökin fyrir botni Miðjarðarhafs. Á fundinum var velt upp spurningum eins og hver er forsaga átakanna og hver er ábyrgð vesturvelda? Hvað er til ráða? Hvaða áhrif hafa alþjóðalög á átök og hvaða úrræði eru í boði ef reglur eru brotnar? Er hætta á að átökin breiðist enn frekar út? Hverjar eru framtíðarhorfur um frið eða er staðan vonlaus?

Þórir Jónsson Hraundal, lektor í Miðausturlandafræðum og arabísku við Mála-og menningardeild Háskóla Íslands opnaði fundinn og Erlingur Erlingsson, hernaðarsagnfræðingur flutti erindi en í kjölfarið var boðið upp á pallborðsumræður með Magneu Marinósdóttur, alþjóðastjórnmálafræðingi og sérfræðingi í jafnréttismálum, Guðmundi Hálfdánarsyni, prófessor í sagnfræði og stjórnarformanni Alþjóðamálastofnunar og Kára Hólmari Ragnarsyni, lektor við lagadeild Háskóla Íslands. Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands sá um málstofustjórn.

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna 75 ára

Í tilefni af 75 ára afmæli mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna stóð til að halda hátíðarfund í samstarfi við utanríkisráðuneytið og forsætisráðuneytið og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands í Veröld-húsi Vigdísar þann 8. desember. Vegna mikilla mótmæla var ekki fundarfært og því ekki um annað að ræða en að aflýsa fundinum.

ARCADE: The Arctic Academy for Social and Environmental Leadership

Á árinu hófst spennandi nýtt námskeið þar sem áhersla er lögð á þær áskoranir sem steðja að norðurslóðum og hvernig hægt er að bregðast við þeim með nýstárlegum lausnum. Að námskeiðinu koma auk Rannsóknaseturs um norðurslóðir, Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands, Ilisimatusarfik háskólinn í Nuuk, UiT Norges arktiske universitet í Tromsø, Arctic Initiative við Kennedy skólann við Harvard háskóla og Hringborð norðurslóða.

Arcade er 10 mánaða langt námskeið fyrir meistara- og doktorsnema af öllum fræðasviðum, þar sem fjallað er um þær miklu áskoranir sem nú steðja að norðurslóðum og lögð áhersla á hvernig hægt er að vinna að lausnum á þeim á þverfræðilegan hátt. 14 nemendur frá Íslandi, Noregi, Grænlandi og Bandaríkjunum tóku þátt í þremur vikulöngum námskeiðum á Íslandi, í Noregi og á Grænlandi þar sem þeir lærðu um þau fjölþættu áhrif sem loftslagsbreytingar hafa á norðurslóðum. Nemendur unnu jafnt og þétt að einstaklings- og hópverkefnum undir leiðsögn sérfræðinga og kynntu niðurstöður verkefna sinna á Hringborði norðurslóða. Verkefnin fjölluðu meðal annars um áhrif bráðnunar hafíss á samfélög í Grænlandi, möguleika á nýtingu vindmylla í hafi til að bæta vistkerfi á hafsbotni, áhrif samráðs við nærsamfélög á einingu um orkunýtingu landsvæða og bætt eftirlitskerfi með vinnslu á sjaldgæfum málmum á Grænlandi.

Snjallræði

Snjallræði, samfélagshraðall, er 16 vikna vaxtarrými (e. incubator) fyrir teymi sem vilja leiða mikilvægar samfélagsbreytingar. Markmið Snjallræðis er að ýta undir nýsköpun sem tekst á við áskoranir samtímans en hraðallinn er þannig mikilvægur vettvangur fyrir samfélagssprota. Snjallræði var stofnað af Höfða friðarsetri árið 2018 og hraðallinn fór því fram í fimmta skipti í haust.

Tíu verkefni voru valin til þátttöku sem öll eiga það sameiginlegt að vilja nýta aðferðafræði nýsköpunar og hönnunarhugsun til þess að tækla samfélagslegar áskoranir. Vaxtarrýmið er nú samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri. Innan Háskóla Íslands koma bæði Sjálfbærnistofnun og Höfði friðarsetur að verkefninu. Verkefnið er styrkt af Reykjavíkurborg, Marel og Vísindagörðum.

Snjallræði hófst 1. september og stóð til 15. desember. Þátttakendur tóku þátt í vinnustofum á vegum Svöfu Grönfeldt og samstarfsfélaga hennar frá MIT designX og nutu handleiðslu færustu sérfræðinga hér á landi, við að þróa lausnir sínar áfram. Í hraðlinum er tekið á nokkrum þáttum í þróunarferlinu, allt frá þarfa- og hagaðilagreiningu, hönnun á sjálfbæru viðskiptamódeli, frumgerðarsköpun og fjárhagsáætlunum yfir í tengslamyndun og framkomu. Þátttakendur kynntu svo nýsköpunarverkefni sín á glæsilegri uppskeruhátíð í desember.

RECLAIM - Reclaiming Liberal Democracy in the Postfactual Age

RECLAIM er alþjóðlegt rannsóknaverkefni sem fjármagnað er af Horizon Europe áætlun Evrópusambandsins. Markmið verkefnisins er að rannsaka áhrif upplýsingaóreiðu á lýðræði í Evrópu. Niðurstöður verkefnisins verða nýttar til ráðlegginga um stefnumótun, fræðslu og aðgerðir til að sporna gegn neikvæðum afleiðingum upplýsingaóreiðu fyrir lýðræðislega umræðu og grunnstoðir frjálslynds lýðræðis í nútímasamfélagi. Alþjóðamálastofnun heldur utan um verkefnið en Maximilian Conrad, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, leiðir það. Auk Háskóla Íslands taka þrettán aðrir háskólar og stofnanir þátt í verkefninu: Goldsmiths College í Bretlandi, Háskólinn í Ljubljana, UAM háskólinn í Madríd, Jagiellonian-háskólinn í Kraká, Scuola Normale Superiore í Flórens, New Bulgarian háskólinn í Sofíu, Alþjóðamálastofnunin í Zagreb, ARENA-stofnunin við Oslóarháskóla, Trans European Policy Studies Association (TEPSA) í Brussel, Alþjóðamálastofnunin í Prag, Alþjóðamálastofnunin í Róm og Liechtenstein Institute í Bendern.

RECLAIM verkefnið stóð fyrir tveimur málstofum á alþjóðlegum ráðstefnum á árinu. Málstofan Reclaiming Public Debates as an EU Response to Post-Truth Challenges: Deliberation, quality information and citizen education fór fram í Madrid 1. júní og 23. nóvember var haldin málstofa í Brussel undir yfirskriftinni Building Democratic Resilience in Europe. Ennfremur hófst rannsóknafasi verkefnisins á árinu og má finna greinar og aðra útgáfu á heimasíðu verkefnisins www.reclaim.hi.is.

Post-Truth Politics and the Future of Democracy in Europe

Lokaráðstefna rannsóknaverkefnisins Post-Truth Politics, Nationalism and the (De-)Legitimation of European Integration var haldin þann 2. maí í Brussel í samstarfi við CEPS – Centre for European Policy Studies. Á ráðstefnunni kynntu rannsakendur verkefnisins niðurstöður rannsókna sinna síðustu þrjú ár og báru fram stefnumótandi tillögur byggðar á þeim. Fundurinn var afar vel sóttur, en lögð hafði verið áhersla á að auglýsa hann fyrir embættismönnum og stefnumótandi aðilum í Brussel.

Post-Truth Politics, Nationalism and the (De-)Legitimation of European Integration er alþjóðlegt rannsóknaverkefni styrkt af Jean Monnet Networks áætlun Evrópusambandsins. Markmið þess var að rannsaka áhrif falsfrétta og upplýsingaóreiðu á umræðu og umfjöllun um Evrópusamrunann og lögmæti hans. Verkefnið hófst árið 2019 og lauk árið 2023. Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands hélt utan um verkefnið, en Maximilian Conrad, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, var aðalrannsakandi þess. Aðrir samstarfsskólar voru ARENA- stofnunin við Oslóarháskóla, Scuola Normale Superiore í Flórens, Háskólinn í Birmingham, Háskólinn í Helsinki og Kaupmannahafnarháskóli. Lesa má nánar um verkefnið og nálgast útgáfu á vegum þess á www.post-truth.is.